Bæði evrópski seðlabankinn og Englandsbanki héldu stýrivöxtum óbreyttum í dag. Stýrivextir standa í 0,75% hjá evrópska seðlabankanum en í 0,5% hjá Englandsbanka. Þetta er lægsta vaxtastig sem sést hefur hjá báðum bönkum. Engar breytingar voru gerðar á öðrum vöxtum bankanna. Þetta er nokkuð í samræmi við væntingar þótt þrýst hafi verið á bankastjórn evrópska seðlabankans að lækka vexti frekar til að draga úr neikvæðum áhrifum skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

Bloomberg-fréttaveitan segir að bankastjórnir beggja banka horfi til þess að lágt vaxtastig styðji við bata efnahagslífsins beggja vegna Ermarsundsins á árinu.