Seðlabankarnir í Ástralíu og Kanada ákváðu að halda að sér höndum og hækkuðu ekki vexti í gær þrátt fyrir þenslu í hagkerfum ríkjanna. Hagvöxtur í Ástralíu á öðrum ársfjórðungi var 0,9% meiri en væntingar voru um og mælist 4,3% á ársgrundvelli og hefur hagkerfið ekki vaxið hraðar í þrjú ár. Þrátt fyrir það ákvað seðlabanki landsins samt sem áður að halda vöxtum í 6,5%. Að sama skapi er mikil þensla í kanadíska hagkerfinu en vöxtum var haldið óbreyttum í 4,5%.

Sú staðreynd að bankarnir tveir héldu að sér höndum þykir til marks um vaxandi áhyggjur um að lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán kunni að þróast út í víðtæka fjármálakreppu. Lausafjárþurrðin hefur nánast útilokað möguleikann á því að seðlabankar grípi til vaxtahækkana þó svo að hagtölur kunni að gefa tilefni til þeirra. Áður en að titringurinn hófst um miðjan júlí höfðu flestir búist við frekari vaxtahækkunum í löndunum tveimur, auk frekari vaxtahækkana á evrusvæðinu og í löndum eins Bretlandi, og eru því ákvarðanir gærdagsins til marks um hversu mikið landslagið hefur breytt. Fram kom í yfirlýsingu kanadíska seðlabankans að forráðamenn hans telja að lausafjárþurrðin verði til þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu auk þess sem að niðursveifla í Bandaríkjunum verði til þess að draga úr eftirspurn eftir útflutningsvörum. Ástralski seðlabankinn gerir ekki grein fyrir ástæðum vaxtaákvarðana.

Sérfræðingar telja að ákvarðanir bankanna um að halda stýrivöxtum óbreyttum styrki þá skoðun að Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki geri það sama í dag og að sá bandaríski muni lækka vexti þann átjánda september. Reuters fréttastofan hefur eftir sérfræðingi í skuldabréfaviðskiptum hjá Deutsche Bank að væntingar séu um að peningamálayfirvöld í Bandaríkjunum muni jafnframt lækka vexti í októbermánuði.

Hagtölur sem voru birtar í gær sýndu að 12,2 prósent minni sölu á notuðu húsnæði í júlí samanborið við mánuðinn þar á undan og 16,1% frá sama tíma í fyrra í Bandaríkjunum. Þykir það benda til þess að ástandið á fasteignamarkaðnum þar í landi fari enn versnandi en vísitalan sem mælir fasteignaviðskipti hefur ekki verið lægri síðan september árið 2001.