Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem birt var rétt í þessu er sú að meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða áfram 5%

Að áliti nefndarinnar hefur peningastefnan skapað verðbólguvæntingum kjölfestu, auk þess að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald.

Verða því meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, áfram 5%, en rök peningastefnunefndarinnar eru þau að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma.

Meiri hagvöxtur en spáð var

Áætlað er að hagvöxtur í fyrra hafi verið heilli prósentu meiri en spáð var í nóvemberhefti Peningamála, eða 6%. Skýrist það einkum af meiri fjárfestingu atvinnuveganna og þjónustuútflutningi á fyrstu níu mánuðum ársins.

Vísa þeir í að spáð sé að hagvöxtur verði áfram ör, eða 5,5% á þessu ári og svo áfram á bilinu 2,5 til 3% á næstu tveimur árum.

Atvinnuþátttaka meiri en áður

Atvinnuleysi sé komið niður fyrir 3% og störfum fjölgi hratt og atvinnuþátttakan sé orðin meiri en hún var mest á þenslutímanum fyrir fjármálakreppuna. Spenna í þjóðarbúinu fari því hraðar vaxandi en áður var áætlað þrátt fyrir innflutning erlends vinnuafls.

Að gefinni þeirri forsendu að kjarasamningar losni ekki á næstunni þá hafa verðbólguhorfurnar batnað lítillega frá nóvemberspánni þrátt fyrir þessa auknu spennu.

Óvissa um kjarasamninga

Óvissa sé þó um kjarasamninga en á móti innlenda verðbólguþrýstingnum vegi lítil alþjóðleg verðbólga og spáð hækkun á gengi krónunnar auk aðhaldssamrar peningastefnu.

Segja þeir að peningastefnan hafi skapað verðbólguvæntingum kjölfestu, haldið aftur af útlánavexti og stuðlað að meiri sparnaði en ella.

Krónan lækkað á ný

Eftir hraða hækkun á gengi krónunnar á seinni hluta síðasta árs hafi gengið lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar á ný.

Stefnt sé að því að draga úr sveiflum á gengi krónunnar, en þó muni viðskipti bankans á gjaldeyrismarkaði markast af því að ekki sé þörf fyrir frekari stækkun gjaldeyrisforðans auk þess að hættan af tímabundnu ofrisi krónunnar í aðdraganda losunar fjármagnshafta hafi minnkað.

Í lokaorðum rökstuðnings peningastefnunefndar segir að aðhaldsstigið á komandi misserum muni ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.