*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 12. apríl 2012 14:20

Oddný G.: Starfshópur um lagningu sæstrengs til Evrópu

Starfandi iðnaðarráðherra segir ekki gert ráð fyrir afskiptum stjórnmálamanna þegar rætt verður um virkjunarkosti í framtíðinni.

Gísli Freyr Valdórsson
Gísli Freyr Valdórsson

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ætlar að hrinda af stað greiningarvinnu innan iðnaðarráðuneytisins á því hvort hægt sé að selja orku á dýrara verði til útlanda í gegnum sæstreng, en nú er gert til stóriðju hér á landi. Ætlar hún að skipa starfshóp til að vinna að hugmyndum um lagningu sæstrengs til Evrópu.

Þetta kom fram í máli hennar á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.  

Einnig kom fram í máli Oddnýjar að ekki verður gert ráð fyrir afskiptum stjórnmálamanna þegar rætt verður um virkjunarkosti í framtíðinni. Með svokallaðri rammaáætlun mun það vera á hendi tilheyrandi verkefnastjórn að ákveða einstaka virkjunarkosti. Þannig sagði Oddný að rammaáætlunin myndi fela í sér umtala heildstæða stefnu um virkjunarkosti. 

Í ræðu sinni sagði Oddný mikilvægt að móta heildstæða stefnu til að ná fram sáttum um virkjunarkosti og sölu á raforku. Hún nefndi sem dæmi leið sem Norðmenn hefðu farið í að innheimta auðlindarentu sem síðan leggst ofan á tekjuskatt þeirra fyrirtækja sem nýta orkuna. Oddný sagði þetta ekki ósvipað þeim tillögum sem komið hefðu fram í nýlegu frumvarpi um stjórn fiskveiða.