Kosið hefur verið um formann Samfylkingarinnar og það er Oddný Harðardóttir sem fékk flest atkvæði eða 59,9% atkvæða í prófkjörinu. Heil 3,787 atkvæði voru greidd og fimmtán seðlar voru auðir. Þetta staðfesta heimildir Viðskiptablaðsins.

Árni Páll Árnason er fráfarandi formaður flokksins en hann hefur setið síðan árið 2013 þegar hann tók við embættinu af Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá kusu fleiri en 5000 manns í formannskjörinu.

Fylgi Samfylkingarinnar er 7,5% samkvæmt síðustu könnun MMR. Um sama leyti í fyrra var fylgi flokksins 11,8% og fyrir tveimur árum 16,3%. Fylgi flokksins hefur því farið dalandi á síðustu tveimur árum.