Sláturfélag Suðurlands er eitt af þeim fyrirtækjum sem eru á First North-markaðnum hér á Íslandi. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að þessi markaður henti fyrirtækinu ágætlega. Fyrirtækið hefur verið skráð á First North síðan 11. júlí 2011. „Við vorum á almenna markaðnum og síðan var þessi First North markaður stofnaður. Við fengum ábendingu um það frá Kauphöllinni að bæði vegna stærð þess hlutar sem við erum með skráðan og tíðni viðskipta þá myndi First North henta okkur,“ segir Steinþór í samtali við Viðskiptablaðið.

Steinþór segir að það séu nokkrir kostir við að vera með félagið skráð á First North. Það er ákveðinn agi og krafa á félög sem eru skráð, þannig að þetta er jákvætt,“ segir Steinþór. Útgefin bréf séu þó það lítil að umfangi að það réttlæti sennilegast ekki þeim kostnaði sem fylgi fullri skráningu. Það hafi sína kosti að vera með félagið skráð á First North fremur en Aðallistann. „Það má segja að það séu aðeins minni kröfur á okkur um birtingar og annað slíkt,“ segir Steinþór. „Við birtum uppgjör bara hálfsárslega, en fyrirtæki á Aðallista birta uppgjör eftir hvern ársfjórðung. Þannig að þetta dregur kannski úr endurskoðunarkostnaði og við höfum álitið það jákvætt,“ segir Steinþór. Hagsmunir eigenda þessara skráðu bréfa séu þeir að bréfunum fylgi forgangur á arð en ekki atkvæðisréttur.

Steinþór segir að verð bréfa í SS hafi lítið breyst frá því að fyrirtækið var skráð á First North og mjög fá viðskipti verið með þau. Þrátt fyrir það standi ekki til að afskrá fyrirtækið. Það hefur engin umræða verið um slíkt, segir Steinþór spurður um það. „Við erum með þessi bréf og þau eru úti. Og auðvitað viljum við að það sé í gangi viðskiptavakt og eðlileg verðmyndun,“ segir Steinþór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .