*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 13. júní 2017 09:38

Ódýrari en Costco

Einingarverð fjörutíu vörutegunda er samanlagt lægra í Bónus og Krónunni en í Costco.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Einingarverð fjörutíu vörutegunda er samanlagt lægra í Bónus og Krónunni en í Costco samkvæmt verðkönnun sem að Ríkisútvarpið framkvæmdi í samstarfi við ASÍ. Vöruúrvalið var jafnframt minna í Costco þar sem að 9 vörutegundir af þeim 49 sem leitað var að fundust ekki til. Farið var í verslanir fimmtudaginn 8. júní milli klukkan 14 og 18 og valin var ódýrasta varan miðað við einingarverð vöru í hverjum vöruflokki óháð vörumerki eða stærð pakkninga. 

Borið var saman verð á hverja einingu, ýmist í kílóatali, lítratali eða stykkjatali. Fyrir hverja einingu af hverri vörutegund á listanum hefði þurft að greiða 23.824 í Costco, sem var hæsta verðið, 21.404 í Bónus sem var ódýrast og 22.331 í Krónunni, sem þýðir að um 11% verðmunur var á samanlögðu einingarverði í Bónus og Costco. 

Oftast var einingarverð ódýrast og dýrast í Costco. Í verslun alþjóðlegu keðjunnar var verðið lægst í 19 tilfellum, 17 vörutegundir voru ódýrastar í Bónus og 4 í Krónunni. Costco var jafnframt dýrast í 14 tilfellum, 12 vörutegundir voru dýrastar í Bónus og 14 í Krónunni. Einnig er vísað til þess að vegna þess hve pakkningar eru mun stærri í Costco en Krónunni og Bónus þurfti að kaupa inn fyrir 56.018 krónur í Costco til að geta keypt vörurnar með lægsta einingarverðinu, samanborið við 19.726 í Krónunni og 20.871 í Bónus. Hægt er að rýna í niðurstöður könnunarinnar hér.

Stikkorð: Krónan Bónus Costco verðkönnun samanburður