*

sunnudagur, 23. september 2018
Innlent 25. júní 2009 15:13

OECD spáir 7% samdrætti á þessu ári

Atvinnuleysið minna en á evrusvæðinu

Ritstjórn

Efnahags- og framfarastofnunin í París, OECD, spáir 7% samdrætti á Íslandi á þessu ári en spár hingað til hafa gert ráð fyrir 10% samdrætti. Samkvæmt spánni verður samdrátturinn 0,8% á næsta ári.

Þá spáir OECD því að fjárlagahallinn á næsta ári verði 7,2% af vergri landsframleiðslu en til samanburðar er gert ráð fyrir að hann verði að meðaltali 8,8% í OECD ríkjunum, 7% á evrusvæðinu og 11,2% í Bandaríkjunum.

OECD gefur reglulega út skýrslu um efnahagshorfur í heiminum. Ný skýrsla leit dagsins ljós í gær. 

Í spánni er gert ráð fyrir  8,8% atvinnuleysi hér á landi á þessu ári en 9,9% á því næsta. Til samanburðar gerir stofnunin ráð fyrir 8,5% meðalatvinnuleysi innan OECD á þessu ári en 9,8% á því næsta.

Samkvæmt spánni verður meðalatvinnuleysið þó enn meira á evrusvæðinu á næsta ári eða um 12%. Á þessu ári er gert ráð  fyrir 10% atvinnuleysi á evrusvæðinu.