*

mánudagur, 22. apríl 2019
Erlent 26. mars 2017 12:25

Óeðlilegt ástand

Lágir vextir á Norðurlöndunum er ekki eðlilegt ástand og fyrr eða síðar munu vextir hækka. Þá gætu norræn heimili lent í skuldavanda ekki ósvipuðum þeim sem Ísland upplifði eftir hrun viðskiptabankanna.

Snorri Páll Gunnarsson
Alexander Freyr Einarsson

Flest íbúðalán á Norðurlöndunum eru óverðtryggð og á breytilegum vöxtum. Það er því mikil áhætta fólgin í væntanlegum stýrivaxtahækkunum þar á næstu árum fyrir lántakendur og heimili, sem eru með þeim skuldsettustu í heimi.

Á Norðurlöndunum eru algengustu íbúðarlánin jafngreiðslulán til 25-40 ára á breytilegum óverð­tryggðum vöxtum.

Í Danmörku eru skammtímavextir á íbúðarlánum að meðaltali -0,45% og langtímavextir 2,46%. Í Finnlandi eru íbúðalánavextir um 1,35%. Í Svíþjóð eru vextirnir 1,83% en íbúðalánavextir stóru sænsku bankanna fjögurra eru að meðaltali 2,04%. Í Noregi eru vextirnir 2,47%. Samkvæmt vaxtatöflum íslensku bankanna eru breytilegir óverðtryggðir vextir þeirra á bilinu 6,35-6,50% (án álags). Vaxtamunurinn nemur því um 5% og þar að auki eru hámarksveðhlutföll lægri á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum

Núverandi vaxtakjör á Norðurlöndunum gefa þó skakka mynd af mögulegri endurgreiðslu íbúðaláns yfir 25 til 40 ára tímabil. Horfa verður á þróun vaxta yfir lengra tímabil og má færa fyrir því rök að því fylgi talsverð áhætta að taka íbúðalán á Norðurlöndunum um þessar mundir.

Meðalvextir í Danmörku frá 1992 til 2017 eru 3,02% og meðalvextir langtíma íbúðalána 5,12%, en stýrivextir í Danmörku eru -0,65%. Meðalvextir í Svíþjóð frá 1994 eru 3,32% og meðaltal breytilegra vaxta á íbúðalánum í kringum 5%, en stýrivextir eru -0,5%. Í Noregi eru meðalvextir 4,31% frá 1992 en stýrivextir 0,5%. Þó að nafnvextir á Norðurlöndunum séu nú í sögulegu lágmarki um þessar mundir er því ekki um að ræða viðvarandi vaxtastig. Fyrr eða síðar munu stýrivextir hækka þar að nýju.

Tengist vandræðum evrusvæðisins

Ástæðan fyrir svo lágum vöxtum á myntsvæðum Norðurlandanna tengist að miklu leyti efnahagsvandræðum ESB-ríkjanna. Þegar evrukrísan skall á undir lok árs 2009 leitaði fjármagn úr evrunni yfir í aðrar eignir og myntir. Erlent fjármagn streymdi til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Innflæðið hækkaði gengi norsku og sænsku krónunnar og ógnaði stöðugleika útflutningsgreinanna, ásamt því að ógna fastgengisstefnu Danmerkur. Til að stemma stigum við innflæðinu lækkuðu seðlabankar þessara landa stýrivexti sína. Undanfarin ár hafa seðlabankarnir svo haldið áfram að lækka vexti til að hækka verðbólgu og örva heildareftirspurn, á sama tíma og hagvöxtur á evrusvæðinu hefur verið hægur.

Hliðaráhrif slakrar peningastefnu á Norðurlöndunum hafa verið stóraukið framboð af lánsfé, mikill útlánavöxtur, vaxandi íbúðalánaskuldir og hækkandi húsnæð­isverð. T.a.m. hafa útistandandi skuldir heimilanna í Noregi og Svíþjóð vaxið hraðar en landsframleiðsla frá árinu 2011 á meðan dönsk heimili eru þau skuldsettustu meðal OECD rikja. Samkvæmt tölum OECD skulduðu dönsk heimili 292% af ráðstöfunartekjum árið 2015, norsk heimili 222% og sænsk heimili 179%. Fleiri þættir hafa þó sett þrýsting á húsnæðisverð, svo sem skattafsláttur, fólksfjölgun (einkum í Noregi), framboðsskortur, hátt tekjustig og góðar aðstæður á vinnumörkuðum.

Á grundvelli yfirlýsinga frá norrænu seðlabönkunum telja greiningaraðilar á borð við Danske Bank að stýrivextir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð verði hækkaðir í fyrsta lagi árið 2018 eða 2019. Þar spilar inn í óvissa tengd útgöngu Breta úr ESB, lítill hagvöxtur á evrusvæðinu og hugsanleg verndarstefna Bandaríkjanna í utanríkisviðskiptum.

En væntanlegar vaxtahækkanir á Norðurlöndunum munu leysa úr læðingi ýmiss konar ný vandamál. Þeir sem keyptu húsnæði með lántöku á svo lágum, breytilegum vöxtum munu sjá greiðslubyrði sína snarhækka. Fyrst að sterk fylgni hefur verið milli lækkandi vaxtastigs og hækkandi húsnæðisverðs undanfarin ár gæti eftirspurn minnkað og húsnæðisverð lækkað talsvert. Í ljósi þess hve hátt hlutfall skuldir heimilanna eru af ráðstöfunartekjum á Norðurlöndunum gætu heimilin lent í kerfisbundnum skuldavanda, ekki ósvipuðum þeim sem Ísland upplifði eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim