Guðmundur Þórðarson og Jóhann Halldórsson drógu framboð sín til stjórnar VÍS til baka. Aðalfundur félagsins, þar sem kjósa á til stjórnar þess, hófst í dag.

Í stjórn VÍS sitja nú Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður, Jostein Sørvoll sem er varaformaður stjórnar, Guðmundur Þórðarson, Bjarni Brynjólfsson og Helga Jónsdóttir.

Enn eru í framboði til stjórnar þau Guðný Hansdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir, Helga Jónsdóttir, Herdís Dröfn Fjeldsted, Jostein Sørvoll, sem gerir það að verkum að undir öðrum kringumstæðum væri sjálfkjörið til stjórnar VÍS.

Með tilliti til laga um kynjahlutföll er stjórnin hins vegar ólögleg, þar eð til að teljast gild þarf stjórnin að innihalda í það minnsta 40% einstaklinga af hvoru kyni - en aðeins 20% stjórnarinnar er karlkyns eins og staðan er nú. Viðmælendur Viðskiptablaðsins, sem til þekkja, segja að ekki sé hægt að kjósa stjórn við þessar aðstæður og því muni að óbreyttu þurfa að boða annan hluthafafund til þess að kjósa stjórn fyrir félagið.