Björn Jón Bragason sagnfræðingur og lögfræðingur segir ekkert markvert hafi komið fram í framsögu embættismannsins sem hélt erindi á klukkustundarlöngum fundi í einni af nefndum Reykjavíkurborgar. Nema þá kannski helst hvernig eigi að draga úr vægi háværustu íbúanna.

Um þetta ritaði hann á facebook síðu sinni, þar sem hann veltir fyrir sér hvort það geti verið að of stór hluti opinberra starfsmanna séu uppteknir við að búa til glærukynningar fyrir aðra opinbera starfsmenn og að of mörgu fólki sé haldið uppteknu við að horfa á þessar kynningar.

Björn Jón var í 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar en í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að stundum komi að honum að fara inn á fundi í nefndum borgarinnar, en þetta hafi verið hans fyrsti fundur í Stjórnskipunar- og lýðræðisráði hennar.

Fánýtar glærukynningar

„Því miður finnst mér þetta nú algengt að fundir séu með þessum hætti, að mikill tími fari í að skoða glærukynningar þar sem verið er að fjalla um það sem mér finnst oft hálffánýtt,“ segir Björn Jón sem tekur það sérstaklega fram að hann vilji ekki gera lítið úr viðkomandi embættismanni.

„Þetta er svona frekar almenn gagnrýni hjá mér. Ég hef setið marga svona fundi á vegum Reykjavíkurborgar en fólk verður að gera sér grein fyrir, einnig embættismennirnir, að þarna eru menn oft í alls kyns dútli sem hefur engan tilgang. Af hverju að halda tólf manns í að hlusta á innantómt bull sem skiptir engu máli?“

Ræddu um hvernig draga mætti úr vægi háværustu íbúanna

Björn Jón segir á facebook síðu sinni að tíma sínum hefði betur verið varið í eitthvað uppbyggilegra.

„...tólf manns þurftu að hlýða í klukkustund á erindi embættismanns um „samþættingu íbúasamráðs inn í pólitíska ákvörðunarferla“ þar sem lögð var áhersla á „félagslega sjálfbær markmið“. Embættismanninum var líka tíðrætt um leiðir til að „leiða samtalið“ í þessum efnum,“ ritaði Björn Jón á síðu sína en neðar svarar hann spurningu um hvort þarna hafi ekkert komið fram um að hlusta á vilja íbúana.

„Nei, það var meira rætt um hvernig mætti draga úr vægi háværustu íbúanna. (Ég er ekki að grínast.)“

Reykjavíkurborg er á hausnum

Björn Jón segir kynninguna byggja á ferð embættismanna og kjörinna fulltrúa, meðal annars frá Reykjavíkurborg til Svíþjóðar til að kynna sér málið.

„Af hverju að vera að fara í ferðir sem eru greinilega settar upp sem hálfgerðar skemmtiferðir,“ segir Björn Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

„Reykjavíkurborg er á hausnum, og mörg önnur sveitarfélög, og það er bara ekki forsvaranlegt að verið sé að fara svona með skattpeningana.“