Samkvæmt frétt RÚV var nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar það sem kjósendur Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi strikuðu oftast yfir. Útstrikanir voru áberandi fleiri á seðlum Framsóknarflokks en hjá öðrum flokkum.

Ekki búið að fara yfir alla þá seðla sem var breytt með yfirstrikunum eða endurröðun á lista en stefnt er að því að þeim verið skilað til landskjörstjórnar á morgun. Enn er því ekki ljóst hvort yfirstrikanirnar muni koma til með að hafa einhver áhrif á röðun þingmanna í kjördæminu. Til þess að Sigmundur Davíð færist niður um sæti þurfa 25% kjósenda í kjördæminu að strika hann út.

Í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu í morgun sagði Sigmundur Davíð að hann teldi að Framsókn hefði getað fengið 18 til 19 prósent fylgi undir hans stjórn. Sagði hann ekki annað hægt en að viðurkenna að niðurstaðan hafi verið slæm. Framsókn hlaut 11,5% atkvæða og átta þingmenn, og misstu því ellefu sæti milli kosninga. Haft er eftir honum að hann hafði lagt drög af því hvernig Framsókn hefði getað hækkað fylgið sitt um fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum.