Að mati sendinefndar AGS er hætta á ofþenslu í hagkerfinu, en áframhaldandi styrking krónunnar dregur úr eftirspurnarþrýstingi og batnandi verðbólguhorfur gætu skapað svigrúm til lækkunar vaxta.

Nú þegar Ísland hefur að mestu leyti losnað undan viðjum fjármagnshafta er það forgangsmál fyrir íslensk stjórnvöld að styrkja eftirlit með fjármálageiranum.

Sveiflur munu aukast sem og áhættutaka. Það er því mikilvægt að hagstjórn, peningastefna og fjármálastefna hins opinbera leggist á sömu sveif til að tryggja sjálfbæran vöxt til framtíðar og koma í veg fyrir ofþenslu í hagkerfinu.

Þetta kom fram í lokayfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á blaðamannafundi í Hannesarholti á þriðjudaginn.

Eftir tveggja vikna opinbera heimsókn og fundarhöld með fulltrúum stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum einkageirans kynnti nefndin þar bráðabirgðaniðurstöðu sína um stöðuna í íslensku efnahagslífi, hugsanlega framþróun og atriði sem ber að varast.

Sameining á bankaeftirliti

Afnám fjármagnshafta leysir úr læðingi áhættuþætti á borð við aukna áhættutöku og sveiflur sem tengjast frjálsu flæði fjármagns milli landa.

Sér í lagi telur nefndin að það rólyndi sem einkennt hefur innlendan bankamarkað frá bankahruni muni snúast í harða samkeppni með fyrirhuguðum breytingum á eignarhaldi viðskiptabankanna þriggja.

Sú þróun er nú þegar hafin, með nýlegri sölu á 29,18% hlut í Arion banka til fjögurra erlendra fjárfesta, „sem munu að líkindum sækjast eftir háum arðgreiðslum, sölu eigna og endurskipulagningu,“ að því er segir í yfirlýsingunni.

Aukin samkeppni og áhættutaka á bankamarkaði gæti skapað kerfisáhættu og reynt á fjármálastöðugleika.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .