„Það hefur verið krafa Neytendasamtakanna allt frá því að innflutningur byrjaði á sínum tíma að stjórnvöld létu af ofurtollastefnunni. Þarna eru gríðarlega háir tollar og það eru að sjálfsögðu neytendur sem borga,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að ríkið hafi alls tekið til sín 1,3 milljarða króna í aðflutningsgjöldum af innfluttu kjöti á síðasta ári. Það er tæplega tvöföld fjárhæð ársins 2013 en þá nam hún 680 milljónum, en hækkunin skýrist af auknum kjötinnflutningi.

Jóhannes segir að stjórnvöld eigi að snúa við blaðinu og leyfa samkeppni að utan með landbúnaðarvörum með lægri tollum. „Það á ekki að tolla matvæli í landi þar sem matvælaverð er jafnhátt og hér er.“