*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 16. apríl 2012 16:46

Ögmundur: Pendúllinn er að sveiflast til vinstri

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að samfélagið sé að breytast. Hægri menn hafi verið duglegir í umræðunni hér áður fyrr.

Gísli Freyr Valdórsson
Haraldur Guðjónsson

„Við lifum á miklum umbreytingar- og byltingartímum. En umbreytingin gerist ekki í einu vetfangi, heldur tekur hún ár og jafnvel áratugi.“

Þetta segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í viðtali við Viðskiptablaðið. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni. 

Blaðamaður víkur að almennri umræðu í pólitíkinni og veltir því upp að það virðist vera erfitt fyrir flesta að taka málefnalega umræðu um hluti án þess að liggja í skotgröfum. Þannig sé víðast hvar mikill ófriður í umræðunni og í samfélaginu almennt. Það er því ekki úr vegi að spyrja Ögmund hvernig hann sjái fyrir sér samfélagið.

„Samfélagið er að byrja að breytast. Við erum að finna fyrir umbrotunum og ég hef trú á því að breytingarnar séu að ganga í garð,“ segir Ögmundur.

„Þegar frjálshyggjan hóf innreið sína gerðist það ekki í einu vetfangi . Þetta hófst í byrjun níunda áratugarins þegar Thatcher og Reagan komust til valda. Öflin á bak við þau settu á fót hugmyndabanka og hugveitur (e. Think tanks) til að vinna peningafrjálshyggjunni brautargengi. Vinstri menn lágu þá í doða. Ég var þá fréttamaður á Sjónvarpinu og tók á móti hverjum frjálshyggjumanninum á fætur öðrum, t.d. Hayek og Buchanan, þeir komu á færibandi Eimreiðarhópsins.“

Sveið þér það?

„Nei, alls ekki, en mér fannst hins vegar mínir menn slappir,“ segir Ögmundur og hlær.

„Ég hef alltaf haft gaman af hugmyndafræðilegri umræðu. En á þessum tíma man ég aðeins eftir því að 1-2 vinstri menn hafi komið hingað til að tala. Þarna voru menn að undirbúa mikla uppskeruhátíð frjálshyggjunnar sem hófst síðan undir aldarlok með botnlausri einkavæðingu og miklu veisluborði. Síðan vitum við hvernig fór og nú eru menn að smakka á eftirréttinum. Hann hefur ekki reynst sérstaklega gómsætur.“

En ertu ekki sjálfur kominn hér ofan í skotgröf? Er í alvöru alltaf hægt að setja samasemmerki þarna á milli og kenna útblásin ríkisútgjöld og mikil umsvif ríkisins – sem vissulega var staðreyndin á síðustu árum fyrir hrun – við frjálshyggjuna? 

„Hvað varðar ríkisútgjöldin þá getur þú verið með mikil útgjöld til félags-, menntunar- og velferðarmála án þess að það sé ríkið sem rekur þau. Þú getur í raun einkavætt þessa geira að fullu. Bandaríkjamenn eru með dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er meira og minna einkarekið,“ segir Ögmundur.

„Það var markmið hægri manna, ríkið átti að fjármagna alla þessa starfsemi. Það var breyting frá fyrri áherslum hægri manna, sem ætluðu að einkavæða þetta allt og láta neytandann greiða. Síðan fóru menn inn á það að láta einkaaðila reka þessa geira en að láta skattgreiðendur greiða fyrir þá. Sjálfstæðisflokkurinn breytti stefnu sinni að þessu leyti um aldamótin. Ríkisútgjöld þurfa því ekki að vera mælikvarði á frjálshyggjuna, heldur er það öllu heldur strúktúrinn á því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir.“

Ögmundur segir í framhaldinu að hann telji pendúlinn vera að færast til vinstri eftir mikla hægri sveiflu á síðustu árum. Hann segist þó ekki eingöngu horfa til stjórnmálaflokka í því samhengi.

„Hægri sveiflan fólst ekki í því að hægri flokkarnir urðu stærri, heldur að allir flokkar urðu hægri sinnaðri og allt stofnanavirki samfélagsins að sama skapi,“ segir Ögmundur.

„Þetta átti við um breska Verkamannaflokkinn á Blair-tímanum. En hann var ekki einsdæmi þó hann komi fyrst upp í hugann, þetta átti við um marga svokallaða vinstri flokka en ekki síður hagsmunasamtök í atvinnulífinu og verkalýðssamtök um allan hinn vestræna heim sem fóru líka að hugsa í markaðslausnum. Það er núna sem þetta er að byrja að snúast til baka en vinstri flokkar á vesturlöndum eiga langt í land.“

Nánar er rætt við Ögmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim