Útgerðarfélagið Ögurvík var selt Brim hf í byrjun sumars. Félagið sem staðsett er í Reykjavík og gerir út frystitogarann Vigra hefur birt ársreikning fyrir árið 2015. Hagnaður félagsins nam 456,5 milljónum króna, samanborið við 272,9 milljón króna hagnað ársins 2014.

Hagnaðurinn hefur því aukist um 67,3% milli ára. Handbært fé frá rekstri minnkaði hins vegar umtalsvert á milli ára og fór úr 42.854.631 krónum árið 2014 í 1.059.196 krónur í ár.

Bókfærðar eignir Ögurvíkur minnkuðu eilítið á milli ára eða um 47,4 milljónir króna og enduðu þær í 4,2 milljörðum króna. Bókfært eigið fé var 225,1 milljón og því var eiginfjárhlutfallið 5%.

Bókfært virði aflaheimilda fyrirtækisins námu 680 milljónum króna. Skuldirnar jukust eilítið og fóru úr 621 milljón króna í 654 milljónir. Veltufjármunir félagsins jukust um 37% og enduðu í 1,02 milljörðum en þeir höfðu verið 744 milljónir árið áður.