Turner-fjölmiðlasamsteypan keypti Latabæ árið 2011 og voru síðustu 26 þættirnir framleiddir fyrir hana á næstu þremur árum. Eftir það ákvað Magnús Scheving að hætta og öll starfsemi fluttist til London. Hann mátti ekkert vinna nema fyrir sjálfan sig næstu tvö ár eftir að hann hætti í Latabæ. Þá skellti hann sér í að kaupa tvö hús og gera þau upp, annars vegar sumarbústað á Þingvöllum og hins vegar veitingastaðinn Rok.

„Að vísu vinn ég við að halda fyrirlestra um allan heim þessa dagana, en þess á milli smíðaði ég húsin og var raunar að klára það seinna á föstudaginn var. Það var bráðfyndið að einhvern tímann seint um kvöld stóð ég drulluskítugur í vinnugallanum ofan í skurði að hamast við að klára endurbygginguna á Rok, þegar tvær mexíkóskar stelpur löbbuðu framhjá og spurðu mig til vegar. Þær báru síðan kennsl á mig og sögðu í áfalli: „You are Sportacus! Oh my god, what happened to you?!“ Þeim fannst þetta ansi mikið stjörnuhrap, sérstaklega í samanburði við lífsstílinn á fólki sem hefur náð frægð í Suður-Ameríku eða hvar sem er raunar.“

Verðmiðinn heldur áfram að hækka

Frá því að Magnús yfirgaf Latabæ fyrir fimm árum hefur enginn þáttur verið framleiddur. Um 100 þættir eru til og ekki stendur til að framleiða fleiri; áhorfendahópurinn endurnýjast stöðugt, þau börn sem horfðu eldast og ný koma í staðinn koll af kolli. Turner réðst í að kaupa sjónvarpsréttinn frá áðurnefndu 171 landi fyrir stórfé, en þegar rétturinn var allur kominn á eina hendi hætti fyrirtækið við áform sín um markaðssókn á markhópinn tveggja til sex ára sem staðið hafði til, og hefur lítið nýtt gert með Latabæ síðan.

„Þeir sýna þættina einungis á sínum stöðvum, sem eru vissulega um allan heim en ekkert í líkingu við það sem Latibær var áður,” segir Magnús. „Latibær er hins vegar mjög vinsæll á Netinu, þar horfa hátt í 10 milljónir manns á þá að meðaltali á dag, og við fáum ennþá stefgjöld og þóknanir af þáttunum. Latibær er þekkasta vörumerki Íslands fyrr og síðar. Þegar könnun var gerð í tíu stærstu löndum heims og fólk á aldrinum 16 til 49 ára spurt um þekkingu á íslenskum vörum, þekktu yfir 70% þeirra Latabæ. Næst var Icelandair með 3% hlutfall. Í stærsta skemmtigarði í heiminum innandyra, sem var að opna í Dubai, er t.d. svæði helgað Latabæ, þannig að aðdráttarafl þessa efnis er mikið víða í heiminum. Ég hef bent forstjóra Turner á hvað þetta er eftirsótt efni og síðan er bara spurningin hvað þeir gera. Mig grunar að þeir ætli bara að halda að sér höndunum þangað til einhver geri þeim gott tilboð, því að verðmiðinn á Latabæ hækkar og hækkar með hverju árinu. En ég vil auðvitað koma þáttunum í almennilega dreifingu á heimsvísu, aftur,“ segir Magnús.

Nánar er rætt við Magnús Scheving í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .