Samfélagamiðlarisinn Facebook vann sigur þegar dómstólar í Beijing komust í dag að þeirri niðurstöðu að kínversku fyrirtæki væri óheimilt að skrá vörumerkið „face book".

Kínverskir fjölmiðlar hafa í kjölfarið velt því fyrir sér vort kínversk yfirvöld séu að mildast í afstöðu sinni til samfélagsmiðilsins. Enn er lokað fyrir Facebook í landinu en félagið hefur þó undanfarið fundað með ráðamönnum með það fyrir augum að hefja innreið sína á markaðinn.

Alþjóðleg fyrirtæki hafa átt í nokkrum vandræðum með að vernda vörumerki sín í Kína og kemur það helst vegna þess að lög í landinu gera þá kröfu að fyrirtækjunum takist að sanna að vörumerkið sé einnig vel þekkt innan landamæra Kína. Apple tapaði samskonar máli í síðustu viku þar sem dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að innlendu fyrirtæki væri heimilt að framleiða töskur og aðrar leðurvörur undir nafninu „IPHONE".