Í fyrirspurnartima á alþingi á mánudag spurði Gunnar Bragi Sveinsson, sem er fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, arftaka sinn í embættinu, Kristján Þór Júlíusson, „hvað í ósköpunum“ tefji það að starfsemi fiskeldissviðs Hafrannóknastofnunar verði flutt til Ísafjarðar.

Gunnar Bragi vísaði þar í ákvörðun sem tekin var árið 2016, þegar hann gegndi embættinu, um að starfsemi fiskeldissviðs Hafrannsóknastofnar verði byggð upp á Ísafirði. Í fréttatilkynningu 6. október 2016 tilkynnti ráðuneyti Gunnars Braga að sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun verði staðsettur á Ísafirði frá árinu 2018.

„Nú erum við komin inn í október 2018 og enn hefur þessi starfsemi ekki hafist fyrir vestan,“ sagði Gunnar Bragi. “Hugmyndin var að sjálfsögðu að sérfræðingurinn, yfirmaður fiskeldissviðsins, yrði staðsettur þar, síðan mundum við hlaða utan á þetta störfum.“

Kristján Þór svaraði því til að það sé ekki í verkahring ráðherra heldur forstjóra Hafrannsóknarstofnunar að ráða starfsfólk til stofnunarinnar. Forstjórinn beri ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi stofnunarinnar gagnvart ráðherra.

Kristján segir ennfremur að Hafrannsóknarstofnun hafi verið spurð út í þetta og svarað á þann veg að ekki sé heppilegt að færa stöðu sviðsstjóra fiskeldis og fiskræktar á Ísafjörð vegna þess að hér sé og muni áfram verða fjölbreytt fiskeldi um land allt. Í svari Hafró kemur jafnframt fram að ekkert nýtt fé hafi fengist í þessi verkefni.

„Ég veit ekki hvort og hvernig okkur mun ganga,“ sagði Kristján Þór ennfremur, „við að hlaða öðrum störfum utan á starfið á Ísafirði. Það veltur allt á því hvaða fjárhag við sköpum Hafrannsóknastofnun.“

Síðan tók ráðherrann sérstaklega fram að það séu „allnokkrir meinbugir á varðandi fjármögnun stofnunarinnar vegna þess að tíðkast hefur mörg undanfarin ár að fjármagna hana að stórum hluta út úr VS-sjóði.“