Það er ekki óalgengt að litið sé á vel efnað fólk sem óvingjarnlegt, eigingjarnt og almennt leiðinlegt. Mörgum sem eiga lítið á milli handanna er illa við ríkt fólk. Þannig hefur það verið og þannig verður það sjálfsagt áfram.

Fjármálasálfræðingurinn og rithöfundurinn Dr. Brad Klontz hefur eytt lunganum úr sínum ferli í að vinna með og rannsaka ríkt fólk. Hann segir að illvild í garð ríks fólks sé eitthvað sem oft byrjar í æsku og ágerist eftir því sem manneskjan verður eldri. Skrifaði hann árið 2014 að „ef þú trúir því í einlægni að peningar séu slæmir og að ríkt fólk sé illt, þá eru líkur á því að þú hafir heyrt um eða upplifað slæma hegðun frá efnaðir manneskju.“

Staðreyndin er sú að sumt fólk er tilbúið að notfæra sér annað fólk til þess að verða ríkt og oft stígur það vel yfir siðferðisþröskuldinn. En ef fólk hins vegar kýs að trúa að þetta eigi við um allt ríkt fólk, og að peningar séu almennt slæmir, þá getur það takmarkað eigin frama.

Hugarfarið getur leitt til fátæktar

Segir Dr. Klontz að þetta hugarfar geti valdið því að fólk nýti sér ekki alla hæfileika sem það hefur. Getur þetta jafnvel orðið hættulegt fyrir fjárhagslega heilsu.

„Þessi innri barátta getur leitt til þess að við verðum föst. Hún kemur í veg fyrir að draumar rætist,“ sagði hann í útvarpsviðtali á dögunum. Hann bætir því við að ef þú tengir peninga við græðgi og sjálfselsku, þá verðir þú líklega aldrei ríkur.

„Þetta útskýrir líka hvers vegna sumt fólk virðist viljandi koma í veg fyrir að því gangi vel fjárhagslega. Það telur að það geti ekki verið ríkt og heiðarlegt á sama tíma.“

Hann hvetur fólk til að reyna að breyta þessari grunnhugmynd sinni um að peningar séu slæmir: „Skoðaðu þína fyrstu upplifun af peningum og hvers vegna þú hefur þetta hugarfar gagnvart auðævum. Sjáðu hvort að örlítið opnara hugarfar gagnvart peningum geti skilað þér í betri fjárhagsstöðu.“