Ólafía B. Rafnsdóttir hefur gengið til liðs við Attentus – mannauð og ráðgjöf.  Þar mun hún sinna alhliða mannauðs- og stjórnendaráðgjöf og vinna að undirbúningi og innleiðingu jafnlaunavottunar samkvæmt jafnlaunastaðli. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að nú sé mikil eftirspurn eftir þeirri þjónustu hjá félaginu.

Ólafía var aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra 2017, formaður VR 2013-2017 og frá 2014-2017 varaformaður Landssambands íslenskra verslunarmanna. Ólafía var fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands, sat í miðstjórn og var  formaður vinnumarkaðsnefndar og jafnréttis- og fjölskyldunefndar.

Einnig hefur hún verið formaður stjórnar Rannsóknarseturs verslunarinnar.  Ólafía starfaði sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs 365 miðla 2005 – 2012 og þar áður sem deildarstjóri innheimtudeildar Tals, þjónustustjóri Islandia Internet og hjá VR. Hún var kosningastjóri fyrir forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996 og 2012.

Ólafía lauk MBA gráðu frá Háskóla Íslands og námi í mannauðsstjórnun og verkefnastjórnun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Um Attentus - mannauð og ráðgjöf

Attentus – mannauður og ráðgjöf vinnur nú með fjölda fyrirtækja að undirbúningi og innleiðingu jafnlaunavottunar samkvæmt jafnlaunastaðli,  sbr. lög nr. 56/2017.  Um er að ræða stór fyrirtæki sem eiga að vera komin með vottun í lok þessa árs, s.s. BYKO, HB Granda, Icelandair, Íslandsbanka, Íslandspóst, Landsbanka Íslands og Öryggismiðstöðina.

Til að auðvelda jafnlaunavottunina er Attentus í samstarfi við PayAnalytics um lausn sem styður við launagreiningar, þ.e. greinir launamun og dregur fram þær breytingar sem þarf að gera á  launasetningu til útrýma kynbundnum launamun á sem hagkvæmastan hátt.

Einnig sinnir Attentus öðrum þáttum sem nýtast við vottunina, s.s. starfs- og hæfnilýsingum og  gerð jafnlaunastefnu. Í jafnlaunateymi Attentus eru Drífa Sigurðardóttir, Ólafía R. Rafnsdóttir,  Helga Láru Haarde ásamt Ingu Björg Hjaltadóttur og Ingunni Björk Vilhjálmsdóttur sem komu að gerð jafnlaunastaðalsins.