Ólafur Ólafsson, fjárfestir, sem situr fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis kl. 15:15, hefur birt upptöku af framsögu sem hann hafði undirbúið flutning á fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag.

Í samskiptum sínum við nefndina frá því hann óskaði eftir fundi 3. apríl sl. gerði Ólafur ráð fyrir að fá rúman tíma til að gera nefndarmönnum og almenningi öllum ítarlega grein fyrir mikilvægum atriðum sem fjallað var um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að því er segir í fréttatilkynningu.

Seint í gær var honum tjáð að nefndin þyrfti að takmarka tíma hans við 10-15 mínútur. Segist hann virða ákvörðun nefndarmanna og hefur sent þeim bréf til upplýsingar um að framsagan í heild sé birt fyrir fundinn. Þeir, sem og almenningur, hafa þá kost á að kynna sér vel þau efnisatriði sem Ólafur hefði viljað koma betur á framfæri fyrir nefndinni.

Ólafur hefur áður haldið því fram að ríkið hafi fengið allt sitt greitt við einkavæðinguna á Búnaðarbankanum, en uppi hafa verið miklar umræður um söluferli Búnaðarbankans og aðkomu þýska bankans Hauck and Afhäuser að því, með ásökunum að bankinn hafi í raun verið leppur fyrir aðra aðila.

Framsaga Ólafs er aðgengileg öllum á vefnum soluferli.is , sem er upplýsingasíða um einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands, en myndbandið má sjá hér að neðan: