„Með Arctic Circle er okkur að takast núna á síðustu tveimur árum og ég tel að það sé endanlega fest í sessi með þinginu núna í næstu viku, að allar þessar þjóðar samþykkja að þetta litla land sem er á miðju þessu svæði verði hið einskonar þorpstorg þessarar samræðu og þessara ákvarðana,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Af því að við erum ekki grunuð um annarlega hagsmuni og allir koma hingað með opnum huga. Það skapar okkur mikil tækifæri í vísindasamfélaginu, háskólasamfélaginu, atvinnulífinu og þjóðinni allri. En það færir líka í okkar hendur aukna ábyrgð,“ bætti hann við.

Lykill að samskiptum við Bandaríkin

Ólafur sagði í þættinum að Norðurslóðamál væru nú orðin burðarás í því að halda uppi nánum tengslum við Bandaríkin og Kanada.

„Það er ekkert annað hagsmunamál sem snertir Bandaríkin með jafn ríkulegum hætti og þeir sjá hag sinn í að vinna með okkur eins og Norðurslóðir. Í þeim efnum er ég búinn að eiga marga fundi með þingmönnum, forystumönnum fyrri ríkisstjórna, vísindamönnum og öðrum í meira en áratug,“ segir Ólafur.

Hann segir að á þessum tíma hafi „orðið algjör þáttaskil. Þegar John Kerry og Obama knúðu fram þessa stefnubreytingu um að nú ætla Bandaríkjamenn að vera afgerandi forystuafl og mjög virkt í þessum efnum á Norðurslóðum og þess vegna koma ýmsir háttsettustu fulltrúar Bandaríkjanna á [Arctic Circle, innsk. blm.] þingið núna í næstu viku til að útskýra hið nýja forystuhlutverk Bandaríkjanna á Norðurslóðum.“

Getur hringt í Pútín ef hann vill

Í þættinum barst talið að samskiptum Íslands og Rússlands. Sigurjón M. Egilsson, þáttastjórnandi Sprengisands, spurði Ólaf:

„Pútín, eruð þið vinir?“

„Ég myndi nú ekki segja að við værum vinir,“ svaraði Ólafur.

„Getur þú hringt í hann?“ Spurði Sigurjón.

„Ja, já já ég get nú alveg hringt í hann en ég er ekki með gsm símann hans ef þú ert að spyrja að því,“ svaraði Ólafur.

Aðspurður sagðist Ólafur ekki hafa rætt beint við forseta Rússlands vegna viðskiptabanns sem gildi á milli Íslands og Rússlands.

„Ég hef auðvitað rætt við fulltrúa rússneskra stjórnvalda um það vegna þess að hvað sem líður átökum einhversstaðar í Evrópu, þá hefur það verið hagsmunamál fyrir Íslendinga í nærri því 70 ár að stunda viðskipti við Rússa. Mér finnst að menn þurfi að muna söguna í þessari umræðu hér en ekki hlaupa bara eftir nýjasta bloggi í þessum efnum,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson.