Ólafur Gylfason, sölu- og markaðsstjóri Össurar, hefur nýtt sér kauprétt sem hann átti á hlutabréfum í fyrirtækinu. Keypti hann áðan 150.000 hluti í fyrirtækinu á genginu 8,55 danskar krónur á hlut. Seldi hann svo 147.022 hluti strax í kjölfarið á genginu 23,5 danskar krónur á hlut. Þetta má sjá af tilkynningum frá Össuri til kauphallar.

Hagnaður Ólafs af viðskiptunum nemur 2.172.517 dönskum krónum, en fjárhæðin jafngildir rétt tæplega 43 milljónum íslenskra króna.

Ólafur er ekki fyrsti stjórnandi fyrirtækisins sem nýtir sér kauprétt á hlutabréfum í fyrirtækinu síðustu daga. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, nýtti sér slíkan rétt í síðustu viku og hagnaðist um 367 milljónir króna. Þá gerði Þorvaldur Ingvarsson, forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri, slíkt hið sama í gær og hagnaðist um 105 milljónir króna.