Ólafur Ólafsson, löngum kenndur við Samskip og S-hópinn svokallaða sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma, keypti fyrir um mánuði ásamt konu sinni Ingibjörgu Kristjánsdóttur afburðahryssu undan landsþekktum stóðhesti. Eigendaskipti voru skráð í vikunni.

Hryssan heitir Álfadrottning og er frá hrossabúinu Austurkoti við Selfoss. Þetta er á máli hestamanna ein af girnilegri hryssum landsins í dag með 8,34 í aðaleinkunn. Markaðsverð á hryssum á borð við Álfadrottningu talið liggja á bilinu 10 til 20 milljónir króna.

Álfadrottning er undan stóðhestinum Álfi frá Selfossi sem hefur verið einn af eftirsóttustu stóðhestum landsins um árabil.

Þau Ólafur og Ingibjörg, sem bæði eru með skráð lögheimili í öðrum löndum, hafa um árabil ræktað hross á bænum Miðhrauni á Snæfellsnesi en jörðina keyptu þau fyrir áratug.

Í byrjun október yfirtók Arion banki eignarhlut Ólafs í útgerðarfélaginu HB Granda í skuldauppgjöri Kjalar, félagi Ólafs við bankann. Skuld félagsins við bankann nam 77 milljörðum króna. Við yfirtökuna var skuldin strikuð út og málaferli Kjalar og bankans felld niður.