Ólafur Jóhannes Einarsson hefur gengið til liðs við BBA. Ólafur Jóhannes var áður framkvæmdastjóri innra markaðssviðs ESA og starfaði í meira en áratug hjá stofnunni á ýmsum sviðum EES-réttar.

Hann hefur reynslu á sviði EES-réttar, samkeppnisréttar, ríkisaðstoðarreglna og opinbers réttar. Með komu Ólafs mun BBA styrkja enn frekar þjónustu sína við viðskiptavini á þessum sviðum.

Baldvin Björn Haraldsson, stjórnarformaður BBA segir komu Ólafs vera gríðarlega mikilvæga fyrir fyrirtækið. „BBA hefur lengi haft augastað á Ólafi Jóhannesi, enda hefur hann viðamikla þekkingu á reglugerðarumhverfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins og hefur verið lykilmaður í ESA undanfarinn áratug,“ segir Baldvin Björn.

„Reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins hafa sífellt meiri áhrif á viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja, bæði hvað varðar opinberan rétt, samkeppnisrétt, persónuverndarlöggjöf, reglur um fjármálafyrirtæki ofl. Þá er ekki síður mikilvægt að Ólafur verður staðsettur í Brussel og hefur þannig góða tengingu við þær stofnanir EFTA og ESB sem þar eru og máli skipta í umræddum málaflokkum.“