Ólafur Þór Hauksson, hættir sem sérstakur saksóknari um áramótin og tekur þá við nýstofnuðu embætti héraðssaksóknara. Um áramótin verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður. Öllu starfsfólki embættisins verður boðið starf hjá héraðssaksóknara sem tekur við rannsókn efnahagsbrota ásamt ýmsu öðru. Ólafur er í viðtali í tímaritinu Áramót þar sem farið er yfir feril hans sem sérstakur saksóknari og þau fjölmörgu mál sem hann hefur haft til umfjöllunar.

Nú hefur þú í sjö ár unnið við að rannsaka mál tengd fólki sem var háttsett í fjármálageiranum. Hefur álit þitt á þessum þjóðfélagshópi eitthvað breyst með árunum?

„Ég kem mér nú yfirleitt ekki upp einhverri afstöðu gagnvart fólki sem ég er að vinna með. Mér finnst skipta miklu máli að fólk sé ekki rúið virðingu sinni og að maður komi alltaf fram við fólk sem fólk. Ég hef engar skoðanir, neikvæðar eða jákvæðar, í þessa átt. Það sem er mitt keppikefli er að fólk fari að lögum og brjóti ekki af sér. Það er aðalatriðið.“ Ólafur segir að þegar verið er að taka svona stór mál til meðferðar þá hafi það auðvitað áhrif. „Þetta er mikið rask. Þetta snertir stóran hóp manna. Það eru margir sem eru yfirheyrðir með stöðu sakbornings og vitna. En engu að síður þá er það bara nauðsynlegt til þess að komast til botns í málum, að vinna þau svona niður.

Nánar er rætt við Ólaf í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .