Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kolibri. Hann tekur við starfinu af Pétri Orra Sæmundsen sem verður stjórnarformaður.

Ólafur hefur verið sölu- og markaðsstjóri Kolibri frá árinu 2014. Hann hefur starfað við stafræna vöruþróun í rúman áratug, m.a. sem framkvæmdastjóri Form5 og vefmarkaðsstjóri hjá WOW air. Þar áður starfaði hann m.a. við vöruþróun hjá mbl.is. Ólafur situr einnig í stjórn ÍMARK, félags markaðsfólks á Íslandi.

Kolibri sérhæfir sig í að hjálpa stærri fyrirtækjum að þróa hugbúnaðarlausnir. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Íslandsbanki, Tryggingamiðstöðin og Landsnet en hjá fyrirtækinu starfa um tuttugu hugbúnaðarsérfræðingar og hönnuðir.

„Þetta verður skemmtileg og krefjandi áskorun. Árið 2014 var metár í rekstri félagsins og þjónustan hefur verið í mjög örri þróun. Við höfum verið að takast á við stærri og flóknari verkefni með okkar kúnnum og það verður einstaklega gaman að fylgja því eftir“ segir Ólafur Nielsen, nýr framkvæmdastjóri Kolibri.