Á fundi rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% eignarhluti ríkisins í Búnaðarbanka Íslands kom fram að Ólafur Ólafsson hafi stýrt samningaviðræðum og verið í forystu um kaupin á Búnaðarbankanum. Í skýrslunni kemur fram að vitneskja um baksamningana hafi takmarkast við fámennan hóp einstaklinga sem bæði önnuðust framkvæmd þeirra eða nutu ávinnings á grundvelli þeirra.

Í þeim hópi voru Ólafur Ólafsson og einnig einstaklingar sem komu fram sem fulltrúar hans.

Ekki allir í S-hópnum tók þátt í blekkingunum

Rannsóknarnefndin taldi rétt að taka fram að í gögnum hennar hafi ekkert komið fram um að aðrir einstaklingar sem voru í forsvari fyrir aðila innan S-hópsins, þ.e. þeir Kristján Loftsson, stjórnarformaður Kers hf., Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, Finnur Ingólfsson, framkvæmdastjóri VÍS og Axel Gíslasaon, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingfa, hafi haft vitneskju um gerð, tilvist, áhrif eða framkvæmd baksamninganna sem um ræðir.

Bæði Finnur Ingólfsson og Kristján Loftsson gáfu allir skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni og sögðust ekkert hafa vitað um fléttuna. Í máli þeirra kom jafnframt fram að Ólafur hafi stýrt samningaviðræðum og verið í forystu um kaupin. Ráðgjafar um kaupin voru ekki ráðgjafar hópsins heldur ráðgjafar Ólafs.

„Ólafur var aðalhvatamaðurinn að því [að Ker hf. tók þátt í söluferli ríkisbankanna]. Hann er eldklár í svona bixi, svona, þannig að hann var sá sem var prímus mótor í þessu. […] hann leiddi þetta alveg. Og við hérna settum allt okkar traust á hann, enda ekki, enda klár gæi. Hann leiddi þetta alveg,“ segir Kristján Loftsson fyrir rannsóknarnefnd Alþingis þann 24. febrúar 2017.

„Ja, sá sem starfaði mest í þessu [verkefni um kaup á hlut í Búnaðarbankanum] var Ólafur Ólafsson, en, og Guðmundur Hjaltason var hans aðstoðarmaður,“ sagði Margeir Daníelsson við rannsóknarnefndina.

Eftirfarandi aðilar höfðu vitneskju um baksamningana að því er kemur fram í máli forsvarsmanna rannsóknarnefndar Alþingis;

  • Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Eglu hf. og starfsmaður Samskipa hf.
  • Ralf Darpe og Michael Sautter, báðir starfsmenn bankans Société Générale.
  • Bjarki Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi á þessum tíma
  • Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings
  • Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar Kaupþings
  • Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings
  • Magnús Guðmundsson, annar framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg
  • Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá sama banka.
  • Karim Van den Ende, lögfræðingur hjá félaginu KV Associates