Ólafur Ólafsson sem er oft kenndur við Samskip hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis formlegt erindi og óskað eftir því að mæta á fund nefndarinnar til að ræða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum árið 2003. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Að sögn Jóns Steindórs Valdimarssonar, varaformanns nefndarinnar, mun málsmeðferðin vera rædd í dag. „Við erum að skipuleggja hana en þetta er viðamikið mál og ekki einungis Búnaðarbankaskýrslan heldur einnig mat á því hvort ráðast eigi í frekari vinnu og gögn sem varða einkavæðingu annarra banka,“ er haft eftir Jón Steindóri í Fréttablaðinu.