Ólafur Ragnar Grímsson sagði í nýársávarpi sínu að akrar þjóðlífsins þyrftu að verða grænir á ný og vísaði hann þar til samtakamáttar fólks eftir eldgosið undir Eyjafjöllum síðastliðið sumar. „[N]ú eru rösk tvö ár frá hruni bankanna, tímabært að við hættum að láta illmælgi og hatursfulla orðræðu hamla för. Bölmóður getur gert að engu áform um umbætur," sagði forsetinn.

„Vissulega þarf að komast að niðurstöðu um hvað fór úrskeiðis, gera nauðsynlegar úrbætur og láta þá sem brutu lögin standa reikningsskil gerða sinna; sérstakir saksóknarar munu ásamt dómstólum landsins tryggja að réttlætið verði í hávegum haft.

Að öðru leyti blasir við að þótt margir búi við atvinnuleysi, skuldabyrði eða fátækt njóta flestir landsmenn lífsgæða og kjara sem teljast á alþjóðavísu vel sæmandi. Allur þorri þjóðarinnar getur því spyrnt við fótum, sameinast um að sækja fram, beitt kröftum sínum, menntun og hæfni í þágu endurreisnar," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.