Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti fund með Anton Vasilev, sendiherra Rússlands, þar sem þeir ræddu stöðuna í viðskiptum landanna og mikilvægi þess að tryggja framhald viðskiptanna. Þetta kemur fram á vef forsetaembættisins.

Auk þess ræddu þeir mikilvægi þess að virtur sé réttur ríkja til að taka afstöðu til einstakra deilna og átaka á alþjóðavettvangi með tilliti til alþjóðalaga, aðildar að bandalögum og viðhorfa grannþjóða.

„Á fundinum var og rætt um ýmsar leiðir sem gætu skref fyrir skref leitt til lausnar í ljósi þess að í báðum löndunum væri ríkur vilji til að varðveita langvarandi og gagnkvæma viðskiptahagsmuni þrátt fyrir tímabundinn ágreining um önnur mál.

Söguleg átök á tímum kalda stríðsins, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin hefðu ekki komið í veg fyrir að Íslendingar og Rússar kappkostuðu að varðveita í áratugi hin traustu viðskiptatengsl landann,“ segir í umfjöllun á vef forsetans.