Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að ekkert eigi eftir að koma í ljós um aflandsfélög í eigu hans eða eiginkonu hans, Dorrit Moussaieff. Þetta kom fram í viðtali sem forsetinn veitti sjónvarpsstöðinni CNN fyrr í dag.

Í viðtalinu spyr þáttastjórnandinn Christiane Amanpour Ólaf ítarlega út í framboð hans og bendir honum á að hann hafi nú þegar setið í fimm kjörtímabil. Spurði hún hann út afstöðu hans til þeirra sem nú bera hann jafnvel saman við Aleksander Lukashenko, forseta Hvít-Rússlands.

Ólafur Ragnar viðurkenndi að þetta væri óvenjulangur tími. Hins vegar hafi undanfarin ár verið afar óvenjuleg. Þá hafi verið sterk krafa undanfarið um stöðugleika og reynslu. Sagði hann Ísland búa við eldri og opnari lýðræðishefð en flest önnur vestræn ríki og taldi því samanburðinn ekki á rökum reistan.

Ólafur sagði einnig að Ísland sé mögulega eina Evrópuríkið sem hafi leyst úr fjármálakreppunni, bankahruninu og áskorunum sem því fylgdi, og nýlegri stjórnarkreppu, með lýðræðið að vopni. Þar vísaði hann í þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar um Icesave-samningana. Víðast hvar í Evrópu virðist fólki hins vegar að lýðræði og fjármálakerfið séu í beinni andstöðu. Ólafur sagði að vegna þessa vilji margir að hann haldi áfram. Fólk vilji hafa þessa lýðræðislegu tryggingu.

Ólafur sagðist fagna því að Panamaskjölin hafi verið gerð opinber. Lýsti hann birtingu þeirra sem mikilvægri almannaþjónusta á tímum þar sem gagnsæi ætti að ríkja.