BHM gerir alvarlegar athugasemdir við auglýsingu WOW air um ólaunað starfsnám þar sem auglýst er eftir háskólamenntuðum starfsmanni með BA gráðu í lögfræði sem skilyrði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BHM en í auglýsingunni segir að starfsnámið sé 160 klst. og að vinnutími sé eftir samkomulagi. Þar segir enn fremur að ef gagnkvæmur áhugi sé fyrir hendi gæti sumarstarf verið í boði í framhaldinu.

BHM ítrekar að vinnuveitendum sé með öllu óheimilt að ráða til sín starfsmenn á lakari kjörum en kjarasamningar kveða á um. Samningar sem kveða á um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógildir.

Silja Rán Arnarsdóttir formaður Orator, félags laganema við Háskóla Íslands, segir í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins vegna málsins að Orator standi fyrir starfsnámi allt árið um kring og að það sé ýmist launað eða ólaunað en það gefur sex einingar sem metnar eru í mastersnáminu.

Þunn lína milli starfsnáms og ólaunaðrar vinnu

„Við erum afar stolt af því fjölbreytta starfsnámi sem Orator, félag laganema við Háskóla Íslands býður uppá,“ segir Silja. „Margir laganemar nýta sér þennan kost og komast oftar færri að en vilja. Þegar um ólaunað starfsnám er að ræða er litið svo á að framlag þess fyrirtækis eða stofnunar til laganemans sé í formi leiðsagnar. Það er því afar mikilvægt að það fyrirtæki eða stofnun sem nýtur góðs af vinnu laganema, sinni einnig fræðslu og að laganeminn fái handleiðslu starfsmanna.“

Hún bætir því við að það sé hennar skoðun að það sé þunn lína á milli starfsnáms og ólaunaðar vinnu. „Það er mikilvægt fyrir laganema að komast í lögfræðilegt umhverfi og reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum. Starfsnám er því vænn kostur og eins og áður segir metin til eininga. Það þýðir þó ekki að laganemar eigi að vinna launalaust og liggur munurinn að mínu mati í því hver verkefni laganemans eru. Þ.e. störf undir handleiðslu starfsmanns gefur laganemum tækifæri á því að afla sér þekkingar og reynslu.

Orator er milliliður og auglýsir starfsnám fyrir fyrirtæki og stofnanir. Ég get ekki svarað því hvort hér sé um lögbrot að ræða en fylgjast þarf vel með framkvæmd starfsnáms og það þurfa að vera skýrar reglur um slíkt. Aðhald lagadeildarinnar er gott og skrifar lagadeildin m.a. undir samninga þar sem viðmið vinnunnar koma fram.“