Það er ef til vill til marks um skarpskyggni Alan Greenspans, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, að ný bók um hans eigið ævihlaup og ástandið í hagkerfum heimsins kom út í gær: Degi áður en að kastljósið beinist að Ben Bernanke, eftirmanni hans í starfi, og hvernig hann muni bregðast við óróanum á mörkuðum. Í viðtölum vegna útgáfu bókarinnar varaði Greenspan við ástandinu á bandaríska fasteignamarkaðnum og sagði að fasteignaverð ætti eftir að lækka meira en flestir hefðu gert ráð fyrir.

Fjöldi viðtala birtist við Alan Greenspan um helgina og í gær vegna útkomu bókarinnar, en hún ber nafnið Öld óróleikans (e. "The Age of Turbulance"), og tjáði hann sig meðal annars um rótið á fjármálamörkuðum og lausafjárþurrðina vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán í breska blaðinu Financial Times. Athygli vekur að Greenspan telur að bandaríski seðlabankinn verði að vera varfærin í aðgerðum sínum um þessar mundir. Bernanke eigi ekki að grípa til raðar stýrivaxtalækkana líkt og hann gerði svo oft þegar óvissa ríkti á mörkuðum. Ástæðu þessa segir Greenspan vera að sambandið á milli atvinnuleysis og verðbólgu hafi breyst. Orsakast það meðal annars af því að vísbendingar eru um að framleiðniaukning verði ekki jafn hröð í Bandaríkjunum á næstu árum auk þess sem Greenspan telur að góðærið í alþjóðahagkerfinu sé að renna sitt skeið á enda.

Alþjóðavæðing uppspretta ódýrs fjármagns
Að mati Greenspans hefur verðbólguþrýstingur haldist lítill vegna alþjóðavæðingarinnar. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt frá og með aldamótum samhliða auðveldu aðgengi að ódýru fjármagni hefur verðbólguþrýstingur ekki verið mikill í alþjóðahagkerfinu. Greenspan rekur það til hjöðnunaráhrifa þess að meira en milljarður verkamanna í áður miðstýrðum í hagkerfum Kína og Sovétblokkarinnar tengist nú alþjóðahagkerfinu. Nú þegar breytingin er gengin um garð þverra verðhjöðnunaráhrifin.

Í viðtalinu segir Greenspan að vísbendingar um undirliggjandi verðbólguþrýsting séu nú þegar til staðar og telur að olíuverð muni fara í 100 Bandaríkjadali á fatið. Hann hefur jafnframt áhyggjur af áhrifum aukningar í áunnum réttindum vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðfélaga á Vesturlöndum á ríkisfjármál og segir að í slíku umhverfi breytist verðbólguvæntingar til hins verra.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.