Samkvæmt tilkynningu frá Umhverfisstofnun var í síðustu viku fjallað um óleyfilegar vörur, sem þó er tekið fram að innihaldi skaðlítil efni, í garðyrkjuþætti á RÚV. Tekur stofnunin það fram að engu að síður þurfi vörurnar sem innihaldi efnin að vera með leyfi til að vera á markaði og á þeim þurfi að vera viðeigandi merkingar og leiðbeiningar um notkun.

Brot á reglum ef þætti ekki breytt

Telst það brot á ákvæðum reglugerðar um plöntuverndarvörur að kynna vörurnar í þættinum og krefst Umhverfisstofnun að þættinum verði annað hvort breytt eða tekinn úr sýningu svo hann standist reglur. Um er að ræða þáttinn „Gurrý í garðinum“ en þar voru meðal annars kynnt tvö efni til að nota gegn skaðvöldum í görðum.

Annars vegar er það varan Permasect 25 EC sem óheimilt er að selja og dreifa hér á landi og hins vegar svokallaða Blautsápu sem ekki er leyfilegt að markaðssetja sem plöntuverndarvöru hér á landi.

Skaðlítil en þurfa samþykki

Permasect 25 EC hefur þó verið á markaði hér á landi um árabil en ekki er lengur heimilt að selja eða dreifa henni vegna þess að hún inniheldur ósamþykkt virkt efni.

Tekið er fram í tilkynningunni að það hafi færst í vöxt að fólk vilji nota efni gegn plöntuskaðvöldum en þau þurfi að fá leyfi, þó þau séu lang oftast einföld lífræn efni sem brotni fremur hratt niður í náttúrunni og séu ekki mjög hættuleg fyrir umhverfið.