Rekstrartekjur sveitarfélagsins Ölfuss voru 2.539 milljónir á síðasta ári og jukust um rúm 10% frá árinu 2017. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði jákvæð um rúmar 500 milljónir króna en heildarhagnaður sveitarfélagsins nam 243 milljónum króna í fyrra.

Tekjuaukningu sveitarfélagsins stafar m.a. af hærra framlagi úr jöfnunarsjóði sem var um 1,5 milljarður króna í fyrra sem er 8% aukning milli ára. Þá fjölgaði íbúum sveitarfélagsins nokkuð milli ára samhliða meiri umsvifum við höfnina í Þorlákshöfn með tilkomu siglinga Smyril line, en rekstrartekjur  hafnarinnar voru um 230 milljónir króna í fyrra sem fjórðungs aukning milli ára.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu kemur fram að nær 75% af útgjöldum í Ölfus eru vegna þriggja málaflokka; fræðslu- og uppeldismála (47%), æskulýðs og íþrótta (14%) og félagsmála (13%). Samtals voru rekstrargjöld sveitarfélagsins fyrir fjármagnsliði 2.036 milljónir króna á síðasta ári.

Heildarstaða langtímaskulda er ríflega 1,5 milljarður króna en sveitarfélagið tók ný lán að upphæð 390 milljónum króna á síðasta ári m.a. í tengslum við lífeyrisgreiðslur til Brúar og uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Haft er eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi, í tilkynningunni að niðurstaða ársreikninga sé hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. „Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu. Í Ölfusi hefur verið byggt upp sterkt þjónustunet þar sem skólarnir og íþróttaaðstaðan eru meðal helstu flaggskipa þjónustunnar. Sveitarfélagið Ölfus vinnur nú að því að nýta þá sterku stöðu sem birtist í ársreikningunum til að bæta þjónustu við bæjarbúa enn frekar og eftir atvikum að bjóða nýja íbúa velkomna.  Á næstu vikum verða auglýstar hagkvæmar lóðir undir íbúðarhúsnæði auk þess sem verið er að leggja lokahönd á skipulag nýrra atvinnulóða á athafnarsvæði hafnarinnar,“ segir Elliði ennfremur.