Ný stjórn Vátryggingafélags Íslands (VÍS) verður kjörin á þriðjudaginn en aðeins átta mánuðir eru síðan núverandi stjórn tók við.  Boðun hluthafafundarins má rekja til þess að um miðjan síðasta mánuð óskuðu SNV Holding  og Hedda eignarhaldsfélag í sameiningu eftir boðun nýs fundar, þar sem kosið yrði til stjórnar. Félögin eru í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar. Frestur til að tilkynna um framboð til stjórnar rennur út á miðnætti.

Töluverðar breytingar hafa verið í eigendahópi VÍS undanfarna mánuði. Í flöggun til Kauphallarinnar í síðustu viku kom fram að félagið Óskabein ehf.  ætti nú orðið meira en 5% hlut í VÍS.

Heimildir blaðsins herma að mikil óánægja sé í þessum hópi, og reyndar öðrum eigendahópum, með rekstur VÍS. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Andri Gunnarsson, einn eigenda Óskabeins, að augljóslega þyrfti að taka til í rekstrinum. Rekstrarkostnaður væri allt of hár og afkoma af tryggingahluta rekstrarins óviðunandi. Hann sagði eðlilegt að eigendur gerðu kröfu um að afkoma af kjarnastarfseminni, vátryggingahlutanum, væri jákvæð en ekki neikvæð. Spurður hvernig hægt væri að laga þetta sagði hann að ein leið væri að hækka verð á tryggingum og önnur leið væri að hagræða innan félagsins. Í því sambandi benti hann á að VÍS væri með ríflega 60 fleiri stöðugildi en TM og um 40 starfsstöðvar víða um land. Andri segir að Óskabein muni beita sér fyrir því að VÍS fjármagni sig með útgáfu víkjandi skuldabréfs, líkt og TM hafi gert fyrr á árinu.

Öruggt er að breytingar verða á stjórninni því nýr maður þarf að koma inn fyrir Steinar Þór Guðgeirsson, sem sagði sig úr stjórninni í ágúst.  Hvort einhver hinna fjögurra sem sitja í stjórninni munu missa sæti sitt er óvíst en þó má telja nokkuð víst að ekki verði sjálfkjörið í stjórnina eins og síðast. Heimildir blaðsins herma að að minnsta kosti tveir eigendahópar, sem ekki hafa teflt fram frambjóðanda áður í stjórn, hyggist gera það núna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .