Félagslegt einkunnakerfi, svokallað Social Credit System, sem er í þróun í Kína er ekki nýtt í augum Kínverja heldur stafræn útgáfa af því sem þeir hafa þekkt í sögunni, að sögn Li Schooland sem upplifði menningarbyltinguna þar í landi.

„Þegar John Stossel á Fox News spurði mig út í það af hverju Kínverjar væru ekki hissa á hinu væntanlega félagslega einkunnakerfi og hvers vegna hugmyndin væri ekki yfirþyrmandi fyrir þá er svarið að ástæðan er sú að við höfum verið undir svona kerfi alla okkar ævi, núna er bara verið að setja það í formlegt, lagalegt og stafrænt kerfi,“ segir Li Schooland sem fæddist í Kína undir stjórn kommúnista.

Félagslega einkunnakerfið sem á að taka gildi árið 2020 í Kína minnir um margt á þátt í sjónvarpsþáttaröðinni Black Mirror sem margir þekkja. Li ferðast nú um heiminn á vegum hinnar frjálshuga Acton-hugveitu til að skipuleggja atburði og segja frá uppvaxtarárum sínum á tímum kínversku menningarbyltingarinnar.

Í heimsókn til Frjálshyggjufélagsins hér á landi varaði hún vesturlönd við að feta í fótspor kommúnismans með öfgum pólítískrar rétthugsunar, til að mynda með takmörkunum á málfrelsi og flokkunum fólks í hópa. „Þeir vilja að allir fylgist með og snúist hver gegn öðrum, alveg eins og það var á tímum menningarbyltingarinnar. Unga fólkið skilur þetta ekki enda eru 9/11 og menningarbyltingin bara eitthvað úr sögubókunum,“ segir Li.

„Þau lifa í veröld þar sem alnetið hefur gefið þeim algerlega frjálsan heim, án landamæra og þau átta sig ekki á hvílík forréttindi það eru. Þau geta sagt það sem þau vilja, keypt hluti hvaðan sem er úr heiminum og verslað. Þau átta sig ekki á að þetta eru forréttindi, ekki gulltryggð, heldur arfleifð sem þau verða að varðveita.“

Li fæddist árið 1958 í Kína, níu árum eftir valdatöku kommúnista á meginlandinu og átta árum fyrir menningarbyltinguna svokölluðu sem stóð í um 10 ár og kostaði allt að þrjár milljónir manna lífið í beinum ofsóknum. Li starfaði lengst af sem kennari í Hawaiiríki Bandaríkjanna en hefur tekið þátt í starfi Acton-hugveitunnar síðustu tvo áratugi. Hún er þó einungis nýfarin að segja sögu sína opinberlega, því lengi vel vildi ekki hún hætta á að verða of þekkt.

„Ég tók loks ákvörðun um að sögu minni þyrfti að fylgja andlit, þannig yrði hún áhrifameiri. Ég treysti á að Guð verndi mig þangað til ég er stöðvuð,“ segir Li sem einnig hefur lagt samtökum frjálshuga stúdenta lið. Viðskiptablaðið ræddi á dögunum við John Kibbe á ráðstefnu ESL-samtakanna hér á landi, en hann hefur líkt og áðurnefndur Stossel tekið viðtal við Li sem hægt er að sjá á samfélagsmiðlum.

„Ég segi fólki frá því hve hræðilegar persónulegar afleiðingar kommúnisminn hefur og hve slæmur áætlunarbúskapurinn er fyrir fólk og efnahaginn. Það hefur haft mikil áhrif, því flestir læra allt úr bókum en ég get sagt þeim mína eigin sögu sem ég fór sjálf í gegnum. Á tímum áætlunarbúskapsins sultum við, öll þjóðin, heilu hungri, ekki vegna þess að það hafi verið skortur á landi, vinnuafli eða að fólk hafi verið latt, það var einfaldlega vegna þess að það var ekkert efnahagslegt frelsi.“

Flokkað í rauða og svarta

Eitt af því sem Li nefnir að sé líkt með andrúmsloftinu í kringum pólítíska rétthugsun dagsins í dag og félagslega einkunnakerfisins sem nú er í þróun og þegar er komið í gagnið í hluta Kína er það hvernig stjórnvöld flokka fólk niður í stéttir með ólík réttindi. Ekki ólíkt því sem lesa má um í bókinni Engan þarf að öfunda sem er saga flóttafólks frá Norður-Kóreu sem gefin hefur verið út á Íslandi.

„Þannig var það líka hjá okkur í Kína, við vorum flokkuð í svokallaða rauða og svarta. Á þessum tíma þýddi það að vera rauður að hafa verið eignarlaus og landlaus í átta kynslóðir, en hinir voru flokkaðir sem svartir. Til að byrja með voru svartir síðan flokkaðir í fimm flokka, ríka, landeigendur, andkommúnista, vont fólk og hægrisinnað fólk.

Hlægilegasti flokkurinn er auðvitað númer fjögur, hinir slæmu, því hægt er að segja hvern sem er vondan, bara fyrir eitthvað yfirborðskennt eins og hvernig skóm fólk klæddist. Ég er því miður ekki að grínast,“ segir Li sem segir kerfið hafa verið stækkað á tímum menningarbyltingarinnar þegar hinum rauðu og þeim sem vildu komast í þann hóp, var sigað á restina.

„Þá var flokkunum fjölgað í níu, og þá bættust til dæmis við þeir sem voru menntaðir eða höfðu tengingar við útlönd. Þetta þýddi meðal annars að þegar við tókum lestirnar þá voru tveir inngangar, annar fyrir þá sem flokkaðir voru sem rauðir og hinir fyrir okkur sem flokkuð vorum sem svört. Ég fæddist svört, ekki vegna þess að ég hafi gert nokkuð, heldur vegna þess að forfeður mínir voru ríkir og valdamiklir, foreldrar mínir menntaðir og kristnir – svo ég var margfaldlega svört.

Það þýddi til dæmis að þegar ég var á fyrsta ári í skóla var mér ekki heimilt að taka þátt í neinu félagslegu starfi í skóla, hvort sem það voru danshópar, hópar sem þjálfuðu færni í að segja frá eða hvað sem var, mér var bannað að taka þátt í því. Hver sem er hafði í raun rétt til að lemja okkur og henda í okkur hlutum, og jafnvel koma heim til okkar og taka það sem þeir vildu.“

Auk hinnar alþekktu opinberu niðurlægingar á opnum torgum sem óspart var beitt í menningarbyltingunni þar sem þeir óæskilegu þurftu að játa á sig brot og sekt fyrir hver þeir voru, segir Li að harkan í refsingunum minni um margt á tíma Stóra dómsins hér á landi sem hún hefur nýlega lært um.

„Í stað þess að drekkja fólki, afhausa eða brenna það á báli þá var vinsælasta aðferðin í Kína að grafa fólk lifandi. Þar sem allir sultu þá varð það að dauðasök að stela mat. Í nálægu þorpi við mig fór strákur á mínum aldri, þá níu ára, í sameiginlega vöruhúsið og stal hnefafylli af hrísgrjónum. Hann náðist og þorpshöfðinginn fyrirskipaði föðurnum að grafa strákinn lifandi. Faðirinn varð geðveikur og drap sjálfan sig í kjölfarið.

Fólki var haldið í stöðugum ótta með hótuninni um að vera grafið lifandi eða sent í fangelsi. Til dæmis var eiginmaður frænku minnar verkfræðingur í kolanámufyrirtæki ríkisins. Hann var aðalverkfræðingur fyrirtækisins því hann var menntaður í vestrinu en það varð glæpur hans. Þegar langafi minn fór að sækja líkið í fangelsið sem hann var sendur í þá var hann orðinn óþekkjanlegur af sulti og pyntingum. Það þurfti að segja honum að þetta væri mágur hans.“

Í heimavist fyrstu 8 ár ævinnar

Li er sannfærð um að sú staðreynd að henni hafi verið smyglað að næturlagi inn í kirkju fljótlega eftir að hún fæddist þar sem hún var skýrð hafi hjálpað til við að hún leiddist ekki út í að taka þátt í múgæsingunni sem margir skólafélagar hennar gerðu.

„Ég trúi því að Guð hafi verndað mig því ég var gefin honum. Árið eftir, þegar bróðir minn fæddist, voru ekki lengur neinar kirkjur, þá þegar höfðu prestarnir verið fangelsaðir eða flúið land. Ég ólst því ekki upp við neina trúarlega menntun, foreldrar mínir létu mig ekki einu sinni vita um skírnina, þetta var allt mjög leynilegt,“ segir Li sem var að mestu alin upp á heimavist á vegum ríkisins fyrstu átta ár ævi sinnar.

Li segir helsta vandann nú vera þann að fólk rugli saman sanngirni og jafnrétti. „Fólk heldur að ef þú átt stórt hús og einhver annar á ekki íbúð, þá sé það óréttlátt, eða ef einhver eigi fullt af peningum í banka en þú lifir á laununum þínum frá mánuði til mánaðar, þá sé það ekki jöfnuður. Þeir gleyma því að við höfum öll frelsi til að keppa á markaðnum og höfum öll jafnan rétt til að segja það sem við viljum. Það þarf að vinna fyrir þeim forréttindum sem við njótum, við búum við þau vegna þess að forfeður okkar unnu hörðum höndum,“ segir Li.

„Það er mjög hættulegt þegar fólk er æst til að hata hina ríku. Við megum ekki leggja einstaklingsfrelsið að veði fyrir svokallaða sanngirni. Það verður lítið eftir af auðnum ef enginn framleiðir og allir deila út afrakstri auðsköpunarinnar. Guð skapaði okkur í sinni mynd með hæfileikann til að skapa, því hann er skapari. Þess vegna höfum við öll tækifæri til að skapa auðsæld og verðmæti, en ef þú réttir þeim allt upp í hendurnar gerum við þá að þrælum og ölmusuþegum. Enginn þjóð verður rík af því að fá þróunaraðstoð, einungis í gegnum efnahagslegt frelsi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .