Þegar ákveðið var, árið 1990, að leyfa viðskipti með kvóta, þá hefði fyrst þurft að gera mat á félagslegum áhrifum, rétt eins og núna þarf að gera mat á umhverfisáhrifum áður en ráðist er í virkjanir eða aðrar stórframkvæmdir.

„Það hefði þurft að athuga hvað hefði verið hægt að gera til að þetta yrði allt saman að minnsta kosti aðeins réttlátara,“ segir Matthias Kokorsch, þýskur landfræðingur sem síðastliðið sumar varði doktorsritgerð sína í landafræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hans var Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og ummhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Heiti ritgerðarinnar er Seigla íslenskra sjávarbyggða og fjallar um og skoðaði meðal annars gögn um byggðaþróun sjávarþorpa hér á landi og áhrif kvótakerfisins sérstaklega á þá þróun.

Aldrei verið svarað
Matthias segir, í ritgerð sinni, að spurningum um áhrif íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins á svæði og byggðir hafi aldrei verið svarað á afgerandi hátt. Tiltæk gögn hafi ekki verið nýtt að fullu til skilnings á þeim flóknu ferlum sem hafa verið að verki í sjávarbyggðunum.

„Víðast hvar á landsbyggðinni hefur fólki fækkað, en ég held reyndar að það hefði gerst jafnvel þótt kvótakerfið hefði ekki komið til sögunnar. Það eru einfaldlega svo að margir vilja ekkert stunda fiskveiðar lengur. Ég ræddi við mikið af ungu fólki í bæjunum og þetta er í rauninni sama þróun og við sjáum alls staðar á jörðinni. Það eru litlir og afskekktir staðir sem oft missa frá sér fólk, og það er ekkert öðru vísi á Íslandi. Hins vegar,“ og það vill Matthias leggja áherslu á, „þá tel ég að kvótakerfið og sérstaklega kvótasalan hafi hraðað þessari þróun.“

Matthias kynnt sér sérstaklega þróunina á tveimur stöðum, Skagaströnd og Raufarhöfn, en á báðum þessum stöðum hefur íbúum fækkað um hátt í þriðjung frá 1990, þegar Alþingi heimilaði útgerðum að stunda viðskipti með kvótahlutdeild sína.

Engu að síður er margt ólíkt með því hvernig þessir tveir bæir hafa tekist á við þessar ytri aðstæður. Á Skagaströnd hefur atvinnulífið gengið betur en á Raufarhöfn, og Matthias rekur það til ólíkrar afstöðu bæjarbúa.

Litu snemma í kringum sig
„Íbúar á Skagaströnd áttuðu sig frekar snemma á því að þeir gætu ekki átt alla sína framtíð undir hefðbundnum fiskveiðum. Þeir þyrftu að fara að líta í kringum sig eftir ýmsu öðru. Þar hafa menn veðjað á mörg smærri verkefni, sem kæmu í staðinn, og það er held ég vænlegra til árangurs.“

Afleiðingarnar yrðu ekki eins afdrifaríkar þótt eitt þessara verkefna detti út. Á Raufarhöfn hafa menn hins vegar ekki feta þessa leið.

„Þar voru menn staðráðnir í því að byggja áfram á fiskveiðum. Þeir litu svo á að Raufarhöfn hafi alltaf verið fiskveiðibær, og vilji vera það áfram. Þetta er virðingarverð afstaða, ekkert að því. En hún getur gert fólkinu erfitt fyrir þegar kvótinn er ekki lengur til staðar.“

Hina ólíku íbúaþróun bæjarfélaganna tveggja má sjá á meðfylgjandi línuriti, sem unnin er upp úr ritgerð Matthiasar. Þar eru merktir inn á atburðir sem markað hafa spor sín í íbúaþróun þeirra.

Matthías bjó í fimm vikur á hvorum stað, ræddi við fjölda íbúa og hafði áður kynnt sér sögu staðanna, meðal annars lesið flest sem finna má um bæði Raufarhöfn og Skagaströnd á timarit.is. Allt það bar hann undir íbúna og tók viðtöl við suma þá sem skrifað höfðu greinarnar.

Félagslegu markmiðin mættu afgangi
Matthias segir margt athugavert við framkvæmd kvótakerfisins. Markmiðin í lögum um stjórn fiskveiða séu skynsamleg, en þar eru þrenns konar markmið tilgreind: Efnahagsleg markmið er lúta að nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum, umhverfisleg markmið er lúta að verndun nytjastofnanna, og félagsleg markmið er lúta að traustri atvinnu og byggð í landinu.

„Það má færa rök fyrir því að efnahagslegu og umhverfislegu markmiðin hafi verið látin njóta forgangs,“ segir í ritgerð Matthiasar. Félagslegu þættirnir hafi hins vegar mætt afgangi. Engu líkara sé en þeir hefðu átt að fylgja af sjálfu sér ef hlúð væri að hinum tveimur markmiðunum. „Hugsanlega var þetta ætlunin frá upphafi,“ segir í ritgerðinni.

Hann segir einn stærsta vandann tengdan því hve skyndilega áföllin hafi riðið yfir á þeim stöðum þar sem kvótinn var seldur burt.

„Á mörgum stöðum, eins og Raufarhöfn, hvarf kvótinn á einni nóttu þegar togari var seldur og þess vegna hefði þurft að vera með plan B á hverjum stað. Þessir bæir hefðu þá getað búið sig undir að missa kvótann. Ef menn hefðu til dæmis haft fimm ára fyrirvara, þá væri þeim engin vorkunn þótt þeir væru ekki tilbúnir að þeim tíma liðnum. En af því þetta gerðist eins og á Raufarhöfn, þar sem Rauðinúpur var seldur einn daginn og sást aldrei framar í höfninni, þá er engin leið að bregðast við því. Áfallið verður svo mikið og skyndilegt.“

Hann starfar nú í Þýskalandi, við Thünen-stofnunina í Braunschweig, þar sem hann stundar rannsóknir á byggðaþróun þar í landi.

„En ég glugga gjarnan í Fiskifréttir eða Morgunblaðið til að fylgjast með því sem gerist á Íslandi, ekki síst á Raufarhöfn og Skagaströnd. Ég vil ekki glutra alveg niður íslenskunni.“