Í dag falla hlutirnir í eðlilegt horf á Íslandi eftir ólíklegt endurris landsins úr efnahagslegu hyldýpi segir meðal annars í umfjöllun breska dagblaðsins The Times , sem gerir afnám fjármagnshafta og endurris íslenska fjármálakerfisins skil.

Þar er rakin saga, sem að flestum Íslendingum er kunnug um uppgang, útrás, hrun og endurreisn á tiltölulega stuttum tíma. Að mati Stephen Brown, sem sérhæfir sig í efnahagsgreingu Evrópuríkja hjá Capital Economics, segir að viðsnúningurinn á Íslandi hafi verið mjög aðdáunarverður, ef tekið er inn í reikninginn hversu hátt fallið hafi verið í hruninu.

Þar er minnt á að Ísland, ólíkt öðrum löndum, tók ekki á sig skuldir vegna hrunsins og í kjölfarið hafi hagvöxtur á Íslandi náð nýjum hæðum í fyrra, eða 7,2% eins og áður hefur verið fjallað um. Skuldir, bæði rikisins og einstaklinga, hefur lækkað talsvert og skuldir ríkisins nema nú einungis 38 prósent samanborið við 95 árið 2011.

Í umfjöllun The Times, er einnig tekið fram hversu mikil áhrif uppgangur ferðaþjónustunnar hefur haft á Ísland. Þrátt fyrir að Ísland hafi slegið Englendinga út úr Evrópukeppninni síðastliðið sumar er stærsti hópa erlendra ferðamanna sem sækja landið heim Bretar. „Aukin umfjöllum um Ísland í erlendum miðlum hjálpaði til á einkennilegan hátt að koma Ísland á kortið,“ er haft eftir Gísla Haukssyni hjá GAMMA Capital Management.