Hagnaður Olís nam rúmum 1,2 milljörðum króna árið 2017, og var 58% hærri en árið áður. Eigið fé nam 6,1 milljarði í árslok og jókst um tæpan fjórðung milli ára.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam rétt tæpum 2,3 milljörðum, fimmtungi meira en í fyrra, og tekjur námu 31,7 milljörðum króna árið 2017, sem er um 2% aukning. Vörunotkun var 23,4 milljarðar og jókst um 1%, fjármagnsgjöld voru 445 milljónir og drógust saman um fjórðung, eða 150 milljónir, og áhrif hlutdeildarfélaga á afkomuna voru jákvæð um 214 milljónir, tæp 30% aukning milli ára.

Eignir jukust lítillega og námu 15,5 milljörðum króna, og skuldir drógust saman um tæpar 630 milljónir og námu 9,4 milljörðum. Eigið fé jókst því eins og áður sagði um tæpan fjórðung, og eiginfjárhlutfall úr 33% í tæp 40%.

Í apríl í fyrra undirrituðu Hagar hf kaupsamning á öllu hlutafé Olís , auk fasteignafélagsins DGV ehf og 40% eignarhlutar í Olíudreifingu ehf. Kaupverðið nam tæpum 9,2 milljörðum króna, en þó með þeim fyrirvara að yrði EBITDA félagsins hærri en 2,1 milljarður yrði kaupverðið hærra.

Næði EBITDA 2,3 milljörðum eða meira yrði kaupverðið milljarði hærra, en eins og fram kom að ofan nam hún aðeins ögn undir því, eða 2.295 milljónum, og má því ætla að kaupverðið verði tæpir 10,2 milljarðar króna. Samkeppniseftirlitið hefur þó enn ekki samþykkt samrunann.