Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, dorgar nú á nokkrum miðum samtímis. Að aðalstarfi er hann framkvæmdastjóri eigin fjárfestingarfélags, Ursus ehf. Hann gegnir stjórnarformennsku í fjarskiptafélaginu Vodafone, olíuleitarfélaginu Eykon Energy og fyrsta innviðasjóði landsins, Innviða fjárfestinga slhf. Einnig er Heiðar varaformaður í stjórn HS veitna. Frá árinu 1996 hefur hann aðallega starfað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, lengst af í New York, London og Zürich.

Nú hefur þú starfað í fjármálabransanum í rúmlega tuttugu ár. Hvernig byrjaði þetta allt saman?

„Ég fór grunnnám í hagfræði við Háskóla Íslands árið 1992. Mig langaði raunar frekar í heimspeki eða bókmenntafræði en taldi hagfræði praktískara nám. Að námi loknu ákvað ég að fara út á vinnumarkaðinn í staðinn fyrir að halda áfram í frekara nám. Ég hafði verið að vinna hjá ferðafélaginu Útivist sem fararstjóri og varð svo framkvæmdastjóri í eitt ár að útskrift lokinni. Það var dýrmætur skóli að reka slíka einingu. Síðan fór ég til Svíþjóðar að vinna í verslunarráðinu í Gautaborg.

Það var þó ekki fyrr en árið 1996 sem ég rataði inn í fjármálaheiminn. Ég sneri heim frá Svíþjóð það ár og fór að vinna hjá verðbréfafyrirtækinu Fjárvangi. Svo var ég yfir markaðsviðskiptum Íslandsbanka. Árið 1999 fór ég út til New York til að stýra vogunarsjóðnum GIR Capital Investment fyrir Kaupþing. Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að búa og starfa í New York. Því starfi gegndi ég til ársins 2003, þegar ég fór til London, þar sem ég vann fyrst sjálfstætt um skeið en fór svo að vinna með Björgólfi Thor hjá Novator Partners árið 2005. Þar var ég mest í fjárfestingum í símafyrirtækjum í Austur-Evrópu.

Sumarið 2009 flutti ég til Zürich í Sviss og stofnaði fjárfestingarfélagið Ursus. Þar var ég í eigin fjárfestingum og stofnaði meðal annars Eykon Energy. Svo flutti ég til Íslands árið 2015. Í augnablikinu er ég að reka innviðasjóð fyrir lífeyrissjóðina. Svo er ég fjárfestir í Vodafone og Eykon Energy, og er einnig í smærri fjárfestingum. Það er alveg nóg að gera!“

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af alþjóðlegum fjárfestingum?

„Hvert menningarsvæði er sérstakt. Finnland er alls ólíkt Svíþjóð, svo dæmi sé tekið, varðandi venjur og viðskiptahætti. Það skiptir öllu máli að hafa sterka heimamenn með sér í liði, sem skilja hvernig heimamenn hugsa og geta brúað það menningarbil sem er á milli aðila. Annars er maður fljótur að sjá hverjir eru viðskiptahugsandi og hverjir ekki. Ég hef stofnað til viðskipta í Aserbaídsjan og þar voru mínir meðfjárfestar góðir aðilar sem höfðu sömu hagsmuni og ég. Landið er eitt hið spilltasta í heimi, en með réttum aðilum er hægt að komast úr því að vera útlendingur í að vinna á jafnræðisgrundvelli.“

Ný staða Íslands í heimsmálum?

Hver er staðan á olíuleit Eykon Energy á Drekasvæðinu?

„Staðan er mjög góð. Við erum að fara að halda mikilvæga fundi í september. Það er búið að ákveða að bora þrjár holur frekar en eina. Þetta er 900 ferkílómetra olíugildra sem við höfum nú staðsett í suðurhluta leyfis okkar. Þetta gæti því verið stærsta olíugildra sem fundist hefur í Atlantshafinu. Við vitum auðvitað ekkert hversu mikið er eftir af olíu þarna, en ljóst er að hún hefur myndast á svæðinu fyrir milljónum ára og sýni af hafsbotni sanna það. Magn olíu getur því verið alveg frá því að vera ekkert upp í það að vera allt að 20 milljarðar tunna. Sambærileg svæði í kringum Noreg, sem eru kannski 150 til 180 ferkílómetrar, geyma til samanburðar um 4 eða 5 milljarða tunna. Við byrjuðum á þessu verkefni árið 2012 og vonumst til þess að geta byrjað að framleiða árið 2025.

Olíuverð hefur lækkað mikið og það hefur gert það að verkum að öll vinna í kringum verkefnið er miklu ódýrari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Lækkun olíuverðs hefur einnig haft þau áhrif að það hefur dregið verulega úr olíuleit. Gagnvart okkur er þetta heppilegt. Við erum að leita á tíma þegar enginn annar er að leita og erum í raun að fá alla vinnu með 80% afslætti frá kostnaðaráætlun.

Olíufundur gæti gjörbreytt Íslandi. Það myndi renna nýrri stoð undir íslenskan útflutning. Rúmlega helmingur af því sem fyndist myndi renna í ríkissjóð í formi skatttekna. Einn milljarður tunna væri um 80% af þjóðarframleiðslu í tekjur fyrir ríkið. Þannig að 20 milljarðar tunna væri fimmtánföld landsframleiðsla. Þess má geta að það erum við – einkaaðilar – sem borgum fyrir þetta og það fellur enginn kostnaður á ríkið. Ef þetta gengur upp verðum við í stöðu til að hjálpa umheiminum. Þá værum við í algerlega nýrri stöðu í heimsmálunum.“

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .