Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem nota mesta olíu á mann. Að meðtöldu millilandaflugi voru notuð 965 þúsund tonn af olíu á síðasta ári samkvæmt gögnum Orkustofnunar, sem samsvarar nærri 2,8 tonnum af olíu á hvern Íslending. Með vexti ferðaþjónustunnar og sér í lagi flugsamgangna hefur olíunotkunin aukist töluvert hér á landi undanfarin ár. Á árunum 2010 til 2017 tvöfaldaðist hlutfall fluggeirans í olíunotkun hér á landi.

Heildarolíunotkun flugfélaganna þrefaldaðist á sama tímabili og notuðu þau 371 þúsund tonn í fyrra sem eru 38% af heildarolíunotkun hér á landi. Næstmest vegur notkun bifreiða sem aukist hefur um 57% frá aldamótum. Hins vegar hefur olíunotkun annarra atvinnugreina dregist saman. Olíunotkun fiskiskipaflotans hefur dregist saman um 40% frá aldamótum. Á sama tímabili hefur olíunotkun í byggingariðnaði dregist saman um 40% og í öðrum iðnaði um 85%. Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segist sjá fyrir sér að það fari að draga úr olíunotkun á næstu áratugum. „Olían hefur hingað til verið einokandi blóð hagkerfa í vestrænum löndum og víðar. Ef það hefur verið vöxtur hefur verið vöxtur í olíunotkun. En þessi skilyrðislausa fylgni er við það að rofna. Það er sótt að olíu úr öllum áttum.“

Í flestum geirum að undanskilinni ferðaþjónustunni hefur olíunotkun dregist saman á Íslandi undanfarin ár. „Endalok olíunnar eru ekki svo fjarri þó að það verði kannski enn þá vöxtur í olíunotkun í heiminum næstu tíu árin en eftir það sé ég það ekki alveg gerast.“ Hér á landi hafi vöxtur ferðaþjónustunnar haldið aftur af þessari þróun. Sigurður bendir sem dæmi á að á að ferðamenn hér á landi hafi ekið yfir 600 milljónir kílómetra í fyrra sem samsvarar akstri ríflega 53 þúsund meðal heimilisbílum. Þá verði að horfa til þess að líklega væru ferðamenn sem komi til Íslands eða fljúgi með íslenskum flugfélögum yfir Atlantshafið að líkindum á ferðalagi að brenna olíu annars staðar ef þeir kæmu ekki til Íslands enda sé Ísland það dýr áfangastaður. „Ég held að menn séu ekki að velja Ísland eða ekki neitt,“ segir Sigurður.

Brynjólfur sér það ekki fyrir sér að það dragi úr olíunotkun í heiminum á næstu árum. „Aukin eftirspurn eftir olíu er að langmestu leyti að koma frá Kína og Indlandi og mun örugglega halda áfram. Ég held að menn sjái ekki fram á að það muni hægja á aukningunni á henni í bráð.“ Þá sé rafbílavæðing enn sem komið er nokkuð skammt á veg komin, en um 1% bifreiða hér á landi eru rafbílar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .