Olíutunnan fór í fyrsta skipti í ár uppfyrir 50 bandaríkjadali tunnan í dag. Gerðist það þegar að fréttir bárust frá Bandaríkjunum um að olíubirgðir þar í landi hefðu minnkað í kjölfar þess að skógareldar í Kanada trufluðu framleiðslu. En einnig er alþjóðleg eftirspurn að aukast og verið meiri en búist var við í stórum ríkjum eins og Kína, Indlandi og Rússlandi.

Brent-hráolía, sem er helsti viðmiðunarflokkur olíuverðs og tveir þriðju heimsmarkaðsverðs olíu miðast við, hefur hækkað í verði um 80% síðan það náði 13 ára lágmarki í byrjun ársins. Olíubirgðir Bandaríkjanna lækkuðu um 4,2 milljón tunnur niður í 537,1 milljón tunnur vikuna fyrir 20. maí samkvæmt tölum gefnum út af orkustofnun landsins.

Aukin heimsmarkaðseftirspurn og minni framleiðsla

Bandaríkin fá mest af sinni olíu frá nágrönnum sínum í norðri, en skógareldar í vesturhluta Kanada hafa minnkað útflutning þeirra um milljón olíutunnur á dag. Einnig hefur haft áhrif viðræður milli OPEC og Rússlands um að frysta olíuframleiðslu sem og að átök eru að trufla olíuframleiðslu í Nígeríu.

Goldman Sachs spáir því að olíuverð muni haldast í kringum 50 dali tunnan á seinni hluta ársins og ná um 60 bandaríkjadölum tunnan við lok árs 2017. Þess má geta að það eru um 159 lítlar af olíu í tunnunni eins og hún er skilgreind í Bandaríkjunum.