Hráolíuverð hefur ekki verið hærra í þrjú og hálft ár. Verð á tunnu Brent hráolíu náði 77,2 dollurum í gær sem er hæsta verð frá nóvember 2014. Hækkunin á hráolíuverði átti sér stað eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi við Íran.

Óljóst er nákvæmlega hvaða áhrif ákvörðun Trump muni hafa en talið er líklegt að Bandaríkin munu hefja viðskiptaþvinganir á ný gagnvart Íran innan 180 daga að því er Reuters greinir frá.

Létt var á viðskiptaþvingunum gagnvart Íran árið 2016. Íranir juku olíuframleiðslu verulega í kjölfarið og urðu þriðja stærsta olíuframleiðsluríki innan OPEC, á eftir Saudí Arabíu og Írak. Olíuframleiðsla Írana í apríl náði 2,6 milljón tonnum á dag.

Talið er að nýjar viðskiptaþvinganirnar gætu haft í för með sér samdrátt á olíuframleiðslu í Íran frá um 200 þúsund og upp í milljón tunna á dag. Tomomichi Akuta, greinandi hjá Mitsubishi UFJ segir að búast megi við því að olíuverð hækki í allt að 90 dollara á tunnu á næstu misserum.