Í kjölfar þess að gögn voru birt í dag sem sýndu að olíubirgðir í Bandaríkjunum hefðu minnkað um 1,5 milljón olíuföt síðustu vikuna hefur olíuverð hækkað nokkuð á mörkuðum. Til að mynda hefur Brent hráolía hækkað um 0,77% í 52,15 Bandaríkjadali þegar þetta er skrifað, og West Texas hráolían um 0,57% eða í 49,39 dali, en framan af degi bjuggust markaðsaðilar við þveröfugri niðurstöðu með tilheyrandi lækkun olíuverðs.

Fylgjast markaðsaðilar náið með þessum upplýsingum til að reyna að sjá merki um það hvort framleiðslutakmarkanir OPEC ríkjanna og annarra olíuframleiðsluríkja séu að ná árangri. En átta mánuðum eftir að OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, ásamt hópi annarra olíuframleiðsluríkja tilkynnti um samkomulag um að þau myndu draga úr framleiðslu um 2% virðist sem 7 af 11 ríkjum samtakanna framleiði meiri olíu en heitið var.

Hefur hráolíuverð í raun lækkað frá upphafi ársins, um tæplega 8,2%, ef miðað er við verðið á Brent hráolíunni, sem hóf árið í 56,82 dölum.  Í umfjöllun Wall Street Journal um málið er fjallað um hvernig OPEC ríkin gátu grætt töluvert á olíuframleiðslu áður fyrr þrátt fyrir lágt olíuverð vegna lítils framleiðslukostnaðar.

Sádi Arabar krefjast að staðið sé við samkomulag

Í dag sé hins vegar öldin önnur því ríkisstjórnir landanna, sem flestar ráða yfir olíuframleiðslunni, hafa aukið mikið við ríkisútgjöld til að halda íbúum ánægðum með alls kyns niðurgreiðslum og styrkjum auk hernaðarútgjalda. Það takmarki getu þeirra til að draga úr olíuframleiðslu. Á fundi OPEC ríkjanna, Rússlands og fleiri olíuframleiðenda í St. Pétursborg í síðustu viku kröfðust Sádi Arabar skýringa frá leiðtogum annarra ríkja á að mörg þeirra hafi enn ekki dregið saman framleiðslu sína.

„Sum ríkjanna hafa ekki staðið sig. Við höfum talað við þá,“ sagði Khalid al-Falih, orkumálaráðherra Sádi Arabíu. Sum ríkjanna neituðu þó að þau væru ekki að standa við sitt, og sagði til að mynd Íraksstjórn upplýsingar OPEC rangar. Síaukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu með jarðbroti síðan 2008 hefur aukið á þrýstinginn á olíuframleiðsluríkin, en Bandaríkin hafa á þessum tíma tvöfaldað framleiðslu sína.

Á sama tíma hefur kostnaður ríkjanna aukist það mikið að þau þurfa nú hærra olíuverð til að standa undir kostnaði en flest stórfyrirtækin á markaðnum, og má þar nefna Exxon Mobil, Royal Dutch Shell og, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , BP.

Gátu framleitt fyrir allt niður í 3 dali fatið

Þveröfugt ástand var áratugum saman og á árunum 2011 til 2014 þegar olíuverðið var mjög hátt gátu OPEC ríkin náð jafnvægi í ríkisfjármálum sínum með olíuverði 10 til 40 dölum lægra heldur en flest fyrirtækin þurftu til að greiða fyrir útgjöld sín. Í dag þurfa OPEC ríkin 10 til 20 dali hærra verð á fatið að því er fram kemur í skýrslu Goldman Sachs.

Styrkur OPEC ríkjanna kom frá auðveldum aðgangi að olíu sem kostaði allt niður í 3 dali fatið í framleiðslu, en mikil aukning ríkisútgjalda til að halda aftur af ólgu meðal almennings, og upplausnarástandi í nágrannaríkjum eins og borgarastríðið í Sýrlandi og Írak.

Þurfa hátt verð til að greiða niður kostnað íbúa

Dæmi um þetta eru sameinuðu arabísku furstadæmin en það kostar einungis 12 dali að dæla upp hverju olíufati en til þess að greiða fyrir ríkisútgjöld þarf bandalag furstadæmanna að selja hana á 67 dali að því er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur fram.

Félagslega kerfið í landinu borgar húsnæðiskostnað, vatnskostnað og ódýrt rafmagn fyrir íbúana, en stjórnvöld óttast mikil mótmæli ef þeir skera of mikið niður. Á sama tíma hafa ríkin við Persaflóa aukið hernaðarútgjöld sín mikið, og eyða þau jafnvel meira en Írak og Ísrael sem þurft hafa að þola árásir og átök árum saman.

Eru furstadæmin eitt það ríkja samtakanna sem helst hafa brotið samkomulagið um að draga úr framleiðslu, með einungis helmingnum af lofuðum niðurskurði að því er Alþjóða orkustofnunin segir. Stjórnarherrar í landinu hafa sagt erfitt að skera niður framleiðslu vegna þess að olíuframleiðsla landsins er háð mörgum sameiginlegum verkefnum með öðrum aðilum. Hafa þeir sagt ætla að draga meira úr framleiðslu og tilkynntu nýlega um takmarkanir á olíuútflutningi.

Lítill árangur af framleiðslutakmörkunum

Í heild samþykktu OPEC ríkin í lok nóvember að draga úr framleiðslu um 1,2 milljón olíuföt á dag, en það tók næstum því heilt ár að fá takmörkunina samþykkta. Hins vegar reyndist framleiðslan einungis 120 þúsund fötum minni á dag í júní heldur en í október að því er Kpler, sem er fyrirtæki sem fylgist með olíuflutningum með olíuskipum.

Carlos Perez, olíumálaráðherra Equador sagði í ríkissjónvarpi landsins í síðasta mánuði að landið myndi ekki taka þátt í framleiðslutakmörkunum „vegna þarfa landsins.“ Írak lofaði að draga úr framleiðslu um 200 þúsund föt á dag, en hefur einungis minnkað framleiðsluna um helminginn af því. Landið hefur glímt við mikinn kostnað vegna stríðsins við hryðjuverkasamtökin sem kalla sig Íslamska ríkið.

Gjaldeyrisforðinn klárast á þremur árum

Tekjur Sádi Arabíu, sem framleiðir um 30% af allri framleiðslu OPEC ríkjanna, af olíusölu hafa dregist saman um 30% frá hámarkinu sínu sem var um mitt ár 2014 en ríkisútgjöld hafa einungis dregist saman um 18%. Í stað þess að draga úr útgjöldum hefur ríkið dregið af 246 milljarða dala gjaldeyrisforða sínum og gefið út 17 milljarða í ríkisskuldabréfum.

„Við höfum reiknað út, og fullt af fólki hefur reiknað það út, að ríkið getur haldið áfram að taka úr gjaldeyrisforðanum í þrjú ár, og þá horfir það fram á mikil vandræði,“ segir Tim Dove, framkvæmdastjóri Pioneer Natural Resources um Sádi Arabíu en fyrirtæki hans stendur að olíuframleiðslu með bergbroti í Bandaríkjunum.

Segja takmarkanir til að undirbúa stærsta hlutafjárútboð sögunnar

Í uppsiglingu er eitt stærsta hlutafjárútboð sögunnar þegar Sádi Arabía hyggst selja hluta af ríkisolíufyrirtæki sínu, en margir telja áætlanir um að draga úr framleiðslu hluta af undirbúningi fyrir útboðið.

Fjármagnið á að nota til að fjármagna nýjan iðnað í landinu, til að reyna að draga úr því hve landið er háð olíuframleiðslu. Olíuráðherrann hefur neitað tengingum þarna á milli.