Átök milli olíuríkja hefur mikil áhrif á þróun efnahagsmála úti um allan heim. Sadí-Arabar vilja keyra jaðarframleiðendur í þrot. Á síðasta ári urðu 42 olíufyrirtæki í N-Ameríku gjaldþrota. Lækkun olíuverðs hefur bein áhrif á forsendur kjarasamninga hérlendis sem koma einmitt til endurskoðunar í þessum mánuði.

Ástandið á olíumarkaði teygir anga sína mjög víða. Lækkandi olíuverð hefur að sjálfsögðu áhrif á rekstur olíufyrirtækjanna sjálfra og fyrirtækin sem þjónusta þau en líka fjölmörg önnur fyrirtæki, fjárhag heilu ríkjanna, verðbréfamarkaði og daglegt líf fólks. Lækkandi olíuverð þýðir að sjálfsögðu að ódýrara er fyrir fólk að kaupa bensín eða olíu á bílinn, enn fremur hefur það stuðlað að lækkun hrávöruverðs og þar með kostnaðar við framleiðslu á ýmiss konar nauðsynjavöru.

Hægt er að færa rök fyrir því að lækkun olíuverðs á heimsvísu hafi haft töluvert mikil bein áhrif á forsendur kjarasamninga á Íslandi, sem koma einmitt til endurskoðunar í þessum mánuði. Á síðasta ári var almennt samið um 30% launahækkun á vinnumarkaði. Ein af forsendunum fyrir kjarasamningum var á almennum vinnumarkaði var að kaupmáttur launa ykist og verðbólga myndi haldast í skefjum. Óhætt er að fullyrða að enginn mannlegur máttur á Íslandi hafi getað stjórnað þessu með fullkomnum hætti. Breytan sem skiptir hvað mestu máli í því að þessar forsendur eru ekki farnar fyrir bí er verðlækkun á olíu og hrávöru. Lækkun olíuverðs hefur auðvitað leitt til lækkunar bensínverðs, sem hefur skilað sér í vasa launafólks, og lækkun á ýmiss konar varningi og þjónustu sem launafólk notar. Lágt olíuverð hefur þannig haft þó nokkur áhrif á það að verðbólgan er ekki farin af stað þrátt fyrir aukna einkaneyslu. Hvort sem mönnum líkar það eða ekki er olía, enn í dag, sú orka sem að stórum hluta drífur hagkerfi heimsins áfram.

Á síðustu 12 árum, eða frá og með árinu 2004 hefur olíuverð aldrei verið lægra en það var þann 20. janúar þegar það verð á olíutunnu fór í 27 dollara. Verðið var reyndar svipað í febrúar 2004 þegar tunnan kostaði ríflega 28 dollara. Á einu og hálfu ári, eða frá júnímánuði 2014 hefur olíuverð lækkað um 76%. Þessi verðlækkun er ekkert einsdæmi. Í júlí 2008 kostaði olíutunnan 145 dollara en í desember sama ár, í kjölfar bankakrísunnar, var verðið komið niður í 36 dollara. Á hálfu ári lækkaði olíuverð því um ríflega 75%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .