Olíuverð hefur lækkað á heimsmörkuðum í dag sem bætist við lækkun undir lok síðustu viku. Er ástæðan aukning olíuborunar í Bandaríkjunum og nægst framboðs frá OPEC og öðrum ríkjum, þrátt fyrir tilraunir samtakanna og ýmissa fleiri ríkja til að halda aftur af olíuframleiðslu að því er Reuters greinir frá.

Lækkaði verðið meira að segja í kjölfar þess að bæði Nígería og Líbýa hafa samþykkt að halda aftur af framleiðslu, en bæði ríkin hafa verið að ná framleiðslu sinni aftur á strik eftir margra ára upplausnarástand. Lækkuðu framvirkir samningar á Brent hráolíu niður um 50 cent í morgun, eða sem samsvarar 1%, og var verðið í morgun komið niður í 46,21 þó nú sé það aftur komið í 46,67 dali samkvæmt Bloomberg.

Eftir tvær vikur hyggjast ýmis sterkustu olíuframleiðsluríki OPEC samtakanna hittast í Rússlandi og ræða ástandið á olíumarkaði, en þjóðunum þykir verðið of lágt.

Vilja viðhalda umframframleiðslugetu

Brent hráolíuverð er alla jafna um 17% lægra í dag en það var í upphafi árs, þrátt fyrir að ríkin virðast halda sig við loforð um takmörkun framleiðslunnar.

Amin Nasser, forstjóri Aramco, ríkisolíufélagsins í Sádi Arabíu segir í samtali við Bloomberg félagið hyggjast fjárfesta meira en 300 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 31.500 milljörðum króna, á næsta áratug til að geta viðhaldið umframframleiðslugetu sinni auk þess að leita eftir jarðgasi. „Fjárfestar eru að draga lappirnar í stórum fjárfestingum í olíuleit og framtíðaruppbyggingu innviða," segir Nassr.

Lítið um fjárfestingar til framtíðar

Segir hann að útlitið á olíumarkaði til framtíðar vera til að hafa áhyggjur af, vegna þess hve lítið af nýjum olíulindum eru að finnast, auk fjárfestinga fyrir andvirði milljarðs dala sem hafa tapast undanfarið í geiranum.

„Það virðist vera aukin trú á það að heimurinn geti hætt að treyst á öruggar og tryggar orkuauðlindir eins og olíu og gas áður en það sé hægt," segir Nasser sem segir það verða langt og flókið kerfi að koma öðrum orkugjöfum í gagnið.„Er það byggt á þeim misskilningi að hægt verði að byrja að nýta aðra orkugjafa fljótlega.“

Fyrirtækið sem stefnir að því sem gæti orðið stærsta hlutafjárútboði sögunnar á næsta ári, en fyrirtækið hyggst tvöfalda jarðgasframleiðslu sína upp í 23 milljarð fermetra á næstu tíu árum, en þar með verður 70% af orkuframleiðslu landsins með jarðgasi. En landið hyggst jafnframt fjárfesta í öðrum orkugjöfum, og verða sterkt á sviði sólarorku.