Í dag tóku á ný gildi refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn olíuútflutningi frá Íran, þó með tímabundnum undanþágum til helstu viðskiptavina landsins sem jafnframt eru bandamenn Bandaríkjanna.

Þar með lýkur afléttingu refsiaðgerðanna sem kom til þegar Obama þáverandi Bandaríkjaforseti skrifaði undir samkomulag árið 2015 við Íran um að landið hætti að þróa kjarnorkuvopn.

Olíuverð hefur lækkað eilítið í dag þegar refsiaðgerðirnar tóku gildi eftir að í ljós kom að ýmsir stórir viðskiptavinir fengu undanþágur. Miklar hækkanir hafa hins vegar verið á olíuverði síðustu misserin. Brent hráolían selst nú á 72,70 Bandaríkjadali fatið sem er lækkun um 0,07% og Vestur Texas hráolían er seld á 62,82 dali fatið sem er lækkun um 0,51%.

Donald Trump núverandi forseti tilkynnti um að Bandaríkin skyldu draga sig út úr samkomulaginu í maí síðastliðnum. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að Ísrael setti fram sönnunargögn um að Íran hefði ekki staðið við samkomulagið um að hætta að þróa kjarnorkuvopn.

Á föstudag tilkynntu stjórnvöld í Washington að þau myndu ekki beita átta aðilum refsiaðgerðum ef þau héldu áfram að flytja inn olíu frá Íran tímabundið. Slík undanþága getur gilt í 180 daga samkvæmt bandarískum lögum.

Suður Kórea hefur tilkynnt um að ríkið hefði fengið slíka undanþágu, en írönsk olía er heppileg fyrir efnaiðnað landsins. Japan hefur einnig sóst eftir undanþágu en Kína og Indland leitast einnig eftir því að fá þær. Tyrkland segist hafa fengið skilaboð um að landið fái einnig undanþágu.

Stærstu kaupendur íranskrar olíu síðustu ár hafa verið Kína, Indland, Suður Kórea, Tyrkland, Ítalía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Japan. Írönsk stjórnvöld hafa sagst ætla að virða refsiaðgerðirnar að vettugi og Evrópusambandið segist ætla að hundsa þær og styðja við fyrirtæki sem geri það. Bandarísk stjórnvöld hafa hins vegar hótað þeim fyrirtækjum hörðum viðurlögum ef brjóta á refsiaðgerðunum.